Valdimar segir að oft sé um hjarðhegðun að ræða. Fari einn yfir böndin sem afmarka göngustíginn fylgi oft fleiri í kjölfarið.
Gullfoss er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins en að sögn Valdimars koma þangað að jafnaði um 2.800 manns á degi hverjum. Í sumar hafi þessi fjöldi stundum verið milli fjögur og fimm þúsund manns.
„Fólki er stýrt mjög vel hérna. Við erum með upplýsingaskilti og bönd sem girða af göngustíga. Samt höfum við ekki mannskap til að elta uppi hvern og einn ferðamann sem fer ekki eftir fyrirmælum.“

Aðspurður hvort hægt sé að koma frekar til móts við þá ferðamenn sem vilji komast sem næst fossinum segir Valdimar að huga þurfi að öryggi ferðamanna og gróðurvernd. „Við erum búin að teygja þetta ansi vel og reynum að vera eins sanngjörn og við getum. Það eru samt takmörk á því þar sem það er hætta á grjóthruni.“
Umhverfisstofnun fer með málefni friðlýstra svæða en Gullfoss var friðlýstur árið 1979. Í nóvember 2016 var samþykkt stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið sem gildir til 2025.
Þar kemur fram að auka skuli meðvitund ferðamanna um þær hættur sem séu til staðar með aukinni fræðslu. Þá er lögð áhersla á að ferðamenn virði merkingar og öryggislínur og fylgi göngustígum.

Svavar Njarðarson, framkvæmdastjóri Gullfosskaffis, telur að bæta þurfi merkingar og afmörkun göngustíga. „Svo veltir maður því fyrir sér hvort það þyrfti ekki að skoða sektarheimildir. Það hefur engar afleiðingar í dag ef fólk fer ekki eftir reglum.“
Hann segir að Umhverfisstofnun sé alltaf að bæta aðstöðuna. „Það er allavega ekki stöðnun eða afturför hérna. Í framtíðinni mætti svo kannski efla gæslu á svæðinu.“