Aðgerðaráætlun sem menntamálaráðherra kynnti í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, í dag miðar að því að efla hag íslenskunnar. Verja hana hvort sem er í bókum, fjölmiðlum eða í netheimum.
Áætlað er að um 400 milljónir á ári fari til að greiða hluta kostnaðar ritstjórna einkarekinna fjölmiðla. Ríkisútvarpinu verður bannað að fá kostun á dagskrárliði og auglýsingatímar verða styttir úr átta mínútum á klukkustund í sex. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra mun leggja fram frumvarp um þetta á Alþingi strax upp úr áramótum.
„Og við erum að fara með það í opið samráð í nóvember. Umfang þessarar aðgerðar er tæpur milljarður þegar við tökum saman þennan beina stuðning. Tölurnar benda til þess að þegar við setjum inn þessa fjárhæð séum við komin á sama stað og Norðurlöndin. Svo erum við að reyna að jafna samkeppnisstöðuna varðandi auglýsingamarkaðinn,“ segir Lilja.

Þá verður virðisaukaskattur á rafrænar áskriftir lækkaður úr 24 prósentum í 11 prósent. Ráðherra mun einnig leggja fram frumvarp um stuðning við útgáfu íslenskra bóka, sem felur í sér endurgreiðslu á 25 prósentum af kostnaði við útgáfu bókanna, í stað þess að fara þá leið að lækka eða afnema virðisaukaskatt á bókum.
„Menn höfðu áhyggjur af því að þetta þyrfti að ná yfir allar bækur (líka erlendar). Þá hefði aðgerðin orðið dýrari, ekki eins markviss. Þannig að við erum að fara nýja leið. Aðalatriðið er að við erum að ná markmiðinu sem ég er mjög ánægð með,“ segir Lilja.
Auk þess verður gripið til aðgerða til að efla íslenskuna í netmiðlum, bæði talaða og skrifaða og menntamálaráðherra ætlar að beita sér fyrir að kenslustundum í íslensku verði fjölgað, svo fátt eitt sé nefnt.
Hér má sjá kynningu menntamálaráðherra í heild sinni.