Á umræddum degi verða tíu ár liðin frá því að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, flutti tilfinningaþrungið sjónvarpsávarp sem endaði á orðunum „Guð blessi Ísland“. Ávarpið markar í hugum flestra Íslendinga upphaf efnahagshrunsins.
Ráðuneytin skiptast á að halda árshátíð Stjórnarráðsins og að þessu sinni var röðin komin að mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Er skipulagningin í höndum starfsmannafélags ráðuneytisins.

Björk Óttarsdóttir, formaður starfsmannafélags ráðuneytisins, vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið sló á þráðinn en samkvæmt heimildum blaðsins hefur málið verið töluvert rætt á göngum menntamálaráðuneytisins. Furða einhverjir starfsmanna sig á þessari afskiptasemi ráðherranna tveggja og óþarfa viðkvæmni með dagsetninguna. Aðrir starfsmenn Stjórnarráðsins hafi hins vegar samúð með sjónarmiðum ráðherranna um að partístand æðstu ráðamanna þjóðarinnar á þessum degi myndi lýsa skeytingarleysi á þessum tímamótum.
Atburðirnir fyrir tíu árum eru ráðherrunum tveimur eflaust minnisstæðir en Katrín var þingmaður í stjórnarandstöðu í október 2008 og varð ráðherra í minnihlutastjórninni sem tók við í lok janúar 2009. Lilja starfaði hins vegar sem sérfræðingur í Seðlabankanum þegar hrunið varð og ætla má að þessir dagar í október 2008 líði hvorugri þeirra úr minni. Hvorki Lilja né Katrín vildu hins vegar tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.