
„Facebook lendir í því að einhverjir hakkarar hafa fundið villu í þeirra vefkerfi sem þeir gátu misnotað til að stela eins konar starfrænum lykli fyrir 50 milljónir af þeirra notendum. Með þessum lykli geta þeir náð í persónugreinanleg gögn, samskipti og annað hjá þeim sem lentu í þessu,“ segir Theodór Ragnar Gíslason, tæknistjóri hjá Syndis.
Facebook hefur ekki upplýst um það hvar í heiminum þeir 50 milljón notendur eru sem brotið var á. Þá er ekki vitað hverjir stóðu að baki árásinni en óljóst er hvort einhverjir starfsmenn Facebook verði gerðir ábyrgir fyrri brotinu.
Theodór segir brot sem þessi mjög alvarleg en þá sérstaklega ef tilgangurinn er að nýta samskipti og persónuupplýsingar fólks, meðal annars í kosningum.

Theodór segir mikilvægt að meðhöndla upplýsingar varlega á netinu, enda sé ekkert kerfi öruggt.
„Maður þarf að muna að þetta getur gerst. Við getum lent i því að okkar gögn verði tekin. Það er mikilvægt að meðhöndla svona miðla af virðingu. Ég myndi segja að það væri númer eitt tvö og þrjú,“ segir Theodór.
