Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi, segir í samtali við Vísi að neysla á kókaíni hafi aukist mikið undanfarið og færst hafi í aukana að ungt fólk, á aldrinum 20 til 40 ára, reyki það.
Í frétt Ríkisútvarpsins kom fram að börn allt niður í fimmtán ára aldur séu farin að reykja krakk og að sautján ára drengur hefði verið fluttur á bráðamóttöku vegna neyslu þess.

Með því að reykja kókaínið hraðar það upptöku efnisins í blóði, því upptakan er hraðari í gegnum lungun heldur en ef efnið er tekið í nefið.
„Þetta er sama efnið en svo veit ég ekki hvort þetta uppfylli skilyrðin fyrir því að kalla þetta krakk. Það eru einhver dæmi um að börn hafi verið að þessu, en fyrst og fremst er þetta eldra fólk, það er að segja ungir fullorðnir,“ segir Valgerður og segir kókaínneyslu mesta á meðal ungs fólks á þrítugs og fertugsaldrinum.