Þetta kemur fram í Facebook-færslu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þá kom fram í færslunni að fundarmenn hafi verið upplýstir um að bæði sjávarútvegsráðherra og umhverfisráðherra hafi verið með til skoðunar hvaða leiðir væru færar til þess að gæta meðalhófs í málum fiskeldisfyrirtækjanna.
Í færslunni kom fram að það væri gert „þannig að fyrirtæki geti almennt fengið sanngjarnan frest til að bæta úr þeim annmörkum sem koma fram í kæruferli og faglega sé staðið að öllum málum.“ Þá sagðist Katrín vona að hægt verði að finna farsæla lausn á málinu sem allra fyrst.
Fyrr í dag birti Sigurður Ingi Jóhannesson, sveitarstjórna- og samgöngumálaráðherra, Facebook-færslu þar sem hann sagði viðmælanda RÚV í frétt um fiskeldi á Vestfjörðum í gær hafi farið með staðlausa stafi um atvinnugreinina. Þá kallaði hann eftir því að þeir sem um málin fjalla fari ekki með rangt mál.
Þá birti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í gær færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagði óvissuástandið sem nú blasir við á Vestfjörðum vera óviðunandi og að bregðast þyrfti hratt við og svara því með hvaða hætti þeim sem í hlut eiga verði tryggður réttur til að láta reyna á stöðu sína gagnvart stjórnvöldum. Í því efni séu ekki eingöngu hagsmunir einstaka rekstraraðila undir heldur alls samfélagsins fyrir vestan.