Rækjuverksmiðjan Hólmadrangur er í elsta hluta Hólmavíkur.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Eitt stærsta atvinnufyrirtæki Hólmavíkur, rækjuvinnslan Hólmadrangur, fékk í dag heimild til greiðslustöðvunar vegna rekstrarerfiðleika. Tuttugu heilsársstörf eru í fyrirtækinu en starfsemin mun ekki stöðvast og segir stjórnarformaður fyrirtækisins, Viktoría Rán Ólafsdóttir, að engum verði sagt upp. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2.
Viktoría segir það vilja eigenda að leita allra leiða til að tryggja rekstur rækjuverksmiðjunnar til lengri tíma, enda sé hún ein sú fullkomnasta á heimsvísu. Starfsemin undanfarin ár hefur einkum falist í því að vinna aðkeypta rækju frá útlöndum og selja á Bretlandsmarkað.
Hólmadrangur er í jafnri eigu Kaupfélags Steingrímsfjarðar og FISK Seafood og hefur veltan numið allt að þremur og hálfum milljarði króna á ári, að sögn Viktoríu.
Frá Hólmavík. Hús Hólmadrangs sjást vinstra megin.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.„Hólmadrangur hefur verið og er enn, einn af máttarstólpum atvinnulífs i Strandabyggð og það er afrek í sjálfu sér að fyrirtækið hafi hingað til, staðið af sér sveiflur og óáran í rækjuiðnaðinum hér á landi,“ segir sveitarstjóri Strandabyggðar, Þorgeir Pálsson, í yfirlýsingu fyrir hönd sveitarstjórnar í dag.
„Með samstilltu átaki og öflugu teymi sérfræðinga, bindum við vonir við að Hólmadrangur vinni sig út úr þessari erfiðu stöðu,“ segir þar ennfremur.
Smábátar eru orðnir burðarásinn í fiskveiðum frá Hólmavík. Aflinn er þó allur fluttur burt úr byggðarlaginu, sem mátt hefur þola fimmtungs fólksfækkun á undanförnum fimm árum.