Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Breiðablik 88-80 | Keflavík slapp með skrekkinn gegn Breiðablik Bjarni Þórarinn Hallfreðsson í Blue-höllinni skrifar 8. nóvember 2018 22:30 Hörður Axel Vilhjámsson átti fínan leik í kvöld Vísir/Bára Keflvíkingar fóru með sigur af hólmi gegn Breiðablik í Dominos-deild karla í kvöld. Lokatölur urðu 88-80 en Breiðablik leiddu leikinn lengi framan af. Bæði lið voru klaufar í byrjun og töpuðu mörgum boltum. Hins vegar voru það Blikar sem settu sín skot niður á meðan Keflvíkingar gerðu það ekki. Var það sem skildi liðin af í hálfleik. Breiðablik byrjaði vel í þriðja leikhluta en um miðbik leikhlutans tóku Keflvíkingar við sér og náðu forystunni og létu þeir hana aldrei af hendi. Blikar náðu góðum kafla í fjórða leikhlutanum og minnkuðu muninn í þrjú stig, en lengra komust þeir ekki. Af hverju vann Keflavík? Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks komst líklega best að orði yfir ástæðuna af hverju Keflavík vann leikinn í viðtali eftir leikinn. En þar sagði hann að reynsla Keflavíkur hafi ráðið úrslitum. Líklega er það rétt hjá honum, og svo eru gæði Keflavíkur einfaldlega betri en hjá Breiðablik. Hins vegar mega Blikar vel við una eftir þennan leik, og voru þeir flottir stóran part leiksins. Hverjir stóðu upp úr? Hjá Keflavík voru það Michael Craion og Hörður Axel. Þeir hrukku í gang í seinni hálfleik. Craion skoraði nokkrar auðveldar körfur í seinni hálfleik þar sem hann gerði ákaflega vel, og á sama tíma byrjuðu skot Harðar að detta niður. Craion endaði með tvöfalda tvennu en hann skoraði 26 stig og tók 10 fráköst. Hörður Axel skoraði 22 stig, tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Hjá Blikum voru það þeir Erlendur Ágúst, Snorri Vignisson og Christian Covile sem sköruðu fram úr. Erlendur og Snorri börðust allan leikinn. Erlendur skoraði 17 stig og skoraði úr nokkrum góðum skotum. Snorri endaði með tvöfalda tvennu en hann skoraði 15 stig og tók 11 fráköst. Covile var bestur framan af í leiknum og skoraði 25 stig. Hann datt hins vegar alveg niður í fjórða leikhluta og gerði hann lítið sem ekkert fyrir Breiðablik þegar þeir þurftu kannski á honum að halda. Hvað gekk illa? Keflavíkurliðið í heild var ekki gott í fyrri hálfleik. Þeir töpuðu mikið af boltum og voru slakir bæði varnarlega og sóknarlega. Annað Keflavíkurlið kom hins vegar til leiks í seinni hálfleik. Blikar töpuðu líka talsvert af boltum en alls töpuðu liðin 18 boltum í fyrri hálfleik. Hvað gerist næst? Keflvíkingar fara til Borganesar þar sem Skallagrímur mun bíða þeirra en Blikar fá Þór Þorlákshöfn í heimsókn. Sverrir Þór: Ég hefði getað farið þarna inn á og gert helmingi betur Það voru blendnar tilfinningar hjá Sverri Þór Sverrissyni, þjálfara Keflavíkur eftir sigur sinna manna gegn Breiðablik. Keflvíkingar áttu ekki góðan leik í kvöld, og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Keflvíkingar voru mun sterkari í seinni hálfleik og skóp það sigurinn. Fallegur sigur var þetta ekki hjá Keflavík, en sigur er sigur. „Já alveg klárlega. En við vorum bara arfaslakir í fyrri hálfleik. Ég var hrikalega pirraður hvað það var mikið baráttu- og viljaleysi og mönnum var bara alveg skítsama. Ég veit ekki hvort að þeir hafi haldið að Blikarnir hafi ætlað að koma hingað og reyna að tapa. Þeir með hörku mannskap. Við vorum bara í tómum vandræðum en ég er ánægður með viðsnúninginn í seinni hálfleik. Þá fórum við að berjast og leggja okkur fram í vörn.“ Blikar höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik, og fyrir leik bjuggust líklega fáir við því. Sverrir var ekki klár á því hvort um vanmat hafi verið að ræða. „Ég veit ekki. Við höfum ekki efni á að vanmeta einn né neinn. Þótt svo við séum búnir að vinna marga leiki í upphafi móts þá eru þetta allt hörkuleikir. Það er ekkert lið í þessari deild lélegt þannig að þú getir bara mætt og engan veginn verið að pæla í leiknum og vinna. Það er ekki þannig, og það verður ekki þannig. Við þurfum heldur betur að fara hugsa okkar gang ef við ætlum ekki að fara tapa fullt af leikjum því við erum ekki nógu vel mótiveraðir. Við getum ekki komið aftur svona eins og í kvöld.“ Aðspurður um hvað fór úrskeiðis hjá Keflvíkingum í fyrri hálfleik var svar Sverris einfalt. Hann þótti sínir menn vera latir. „Mér fannst menn bara hreinlega latir. Ég hefði getað farið þarna inn á og gert helmingi betur. Það væri sorglegt en ég hefði allavega nennt þessu. En menn svöruðu þessu í seinni hálfleik og það er mjög jákvætt. Við þurfum að halda áfram frá því sem við gerðum í seinni hálfleik. Þú átt aldrei að geta látið fólk segja við þig að þú hafir verið latur og ekki með vilja. Ég vil ekki sjá það aftur í mínu liði.“ Pétur: Við erum að læra að klára leiki á meðan þeir kunna að klára leiki Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks var að vonum svekktur eftir tap sinna manna gegn Keflavík í kvöld. „Við ætluðum auðvitað að vinna þetta. Við erum í baráttu um að vinna hvern einasta bardaga sem við tökum þátt í. Þetta er mjög erfiður heimavöllur, og þeir kláruðu þetta bara.“ Breiðablik voru með yfirhöndina í leiknum fyrstu 25 mínúturnar og spiluðu þeir feiknavel á þessum mínútum en duttu aðeins niður eftir það. Pétur segir að reynsla Keflavíkur hafi haft yfirhöndina í kvöld. „Það er bara reynsla hjá þeim. Í sjálfu sér spiluðu þeir ekki nema einn og hálfan leikhluta góðann. Þannig við unnum þá í góðum leikhlutum en það skiptir engu máli. Við erum ný komnir upp úr fyrstu deild á meðan leikmenn eru að koma úr háskóla og atvinnumennsku sem eru í þessu liði og þar liggur kannski munurinn. Við erum að læra að klára leiki á meðan þeir kunna að klára leiki.“ Breiðablik getur tekið margt jákvætt úr þessum leik en fyrirfram voru líklega ekki margir sem bjuggust við eins jöfnum leik og raunin varð. „Við erum að leggja okkur fram og það er ný maður að koma inn og hann fellur ágætlega inn í þetta. Það er kannski það jákvæða.“ Hörður Axel: Það sem Sverrir sagði í hálfleik er ekki sjónvarpshæft Hörður Axel Vilhjálmsson, leikmaður Keflavíkur átti flottan leik í sigri á Breiðablik í kvöld. Hann var þó ekkert alltof sáttur með spilamennsku Keflavíkurliðsins í heild sinni, þá sérstaklega í fyrri hálfleik. „Við vorum mjög flatir og lélegir í seinni hálfleik en snérum svo við blaðinu í seinni hálfleik. Við komum af krafti inn í seinni hálfleikinn. Við skrúfuðum upp kraftinn sérstaklega varnarlega og þá kemur hitt með. Við fengum auðveldar körfur og svo kviknaði heldur betur á Craion.“ Aðspurður hvað fór úrskeiðis í fyrri hálfleik var svar Harðar einfalt. Það var allt sem fór úrskeiðis. „Það var í rauninni bara allt. Við vorum seinir aftur og vorum að slútta illa sóknarlega sem gefur þeim færi á að hlaupa á okkur í bakið. Við vorum ekki að stíga út. Við vorum latir varnarlega, bæði hvað varðar færslur og einn á einn varnarleik þannig að þeir fóru auðveldlega framhjá okkur. Það var ansi mikið sem fór úrskeiðis í fyrri hálfleik.“ Sverrir Þór, þjálfari Keflavíkur var alls ekki sáttur með spilamennsku Keflavíkur í fyrri hálfleik, og segir Hörður að hann hafi látið leikmennina heyra það í hálfleik. Hvað hann sagði nákvæmlega sagði taldi Hörður ekki vera sjónvarpshæft. „Það er nú ekki sjónvarpshæft held ég. Hann lét okkur heyra það sem við þurftum að heyra og það virkaði, en það á ekki að þurfa. Við erum það gamlir og við erum það reyndir að við eigum að bera virðingu fyrir öllum þeim sem við spilum á móti og mæta í alla leiki eins, ekki bara á móti þeim sem við teljum okkur vera á pari við. Mér fannst fyrri hálfleikurinn vera svolítið framhald af Grindavíkurleiknum sem ég hef áhyggjur af. Ég vona að við tökum þetta og notum þetta sem víti til varnaðar.“ Hörður segir að það hafi verið ákveðið vanmat hjá Keflvíkingum í kvöld, eða það hafi allavega litið þannig út. „Það leit þannig út. Þegar menn leggja sig ekki fram, þá er það ekkert annað en vanmat. Við verðum samt að átta okkur á því að við erum að keppa, og það er gaman að keppa. Við verðum að hafa gaman að því sem við erum að gera. Ekki bara mæta hingað því það er leikur klukkan 19:15. Það leit svolítið þannig út í fyrri hálfleik, það var engin gleði í því sem við vorum að gera. Við þurfum að rífa okkur upp.“ Dominos-deild karla
Keflvíkingar fóru með sigur af hólmi gegn Breiðablik í Dominos-deild karla í kvöld. Lokatölur urðu 88-80 en Breiðablik leiddu leikinn lengi framan af. Bæði lið voru klaufar í byrjun og töpuðu mörgum boltum. Hins vegar voru það Blikar sem settu sín skot niður á meðan Keflvíkingar gerðu það ekki. Var það sem skildi liðin af í hálfleik. Breiðablik byrjaði vel í þriðja leikhluta en um miðbik leikhlutans tóku Keflvíkingar við sér og náðu forystunni og létu þeir hana aldrei af hendi. Blikar náðu góðum kafla í fjórða leikhlutanum og minnkuðu muninn í þrjú stig, en lengra komust þeir ekki. Af hverju vann Keflavík? Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks komst líklega best að orði yfir ástæðuna af hverju Keflavík vann leikinn í viðtali eftir leikinn. En þar sagði hann að reynsla Keflavíkur hafi ráðið úrslitum. Líklega er það rétt hjá honum, og svo eru gæði Keflavíkur einfaldlega betri en hjá Breiðablik. Hins vegar mega Blikar vel við una eftir þennan leik, og voru þeir flottir stóran part leiksins. Hverjir stóðu upp úr? Hjá Keflavík voru það Michael Craion og Hörður Axel. Þeir hrukku í gang í seinni hálfleik. Craion skoraði nokkrar auðveldar körfur í seinni hálfleik þar sem hann gerði ákaflega vel, og á sama tíma byrjuðu skot Harðar að detta niður. Craion endaði með tvöfalda tvennu en hann skoraði 26 stig og tók 10 fráköst. Hörður Axel skoraði 22 stig, tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Hjá Blikum voru það þeir Erlendur Ágúst, Snorri Vignisson og Christian Covile sem sköruðu fram úr. Erlendur og Snorri börðust allan leikinn. Erlendur skoraði 17 stig og skoraði úr nokkrum góðum skotum. Snorri endaði með tvöfalda tvennu en hann skoraði 15 stig og tók 11 fráköst. Covile var bestur framan af í leiknum og skoraði 25 stig. Hann datt hins vegar alveg niður í fjórða leikhluta og gerði hann lítið sem ekkert fyrir Breiðablik þegar þeir þurftu kannski á honum að halda. Hvað gekk illa? Keflavíkurliðið í heild var ekki gott í fyrri hálfleik. Þeir töpuðu mikið af boltum og voru slakir bæði varnarlega og sóknarlega. Annað Keflavíkurlið kom hins vegar til leiks í seinni hálfleik. Blikar töpuðu líka talsvert af boltum en alls töpuðu liðin 18 boltum í fyrri hálfleik. Hvað gerist næst? Keflvíkingar fara til Borganesar þar sem Skallagrímur mun bíða þeirra en Blikar fá Þór Þorlákshöfn í heimsókn. Sverrir Þór: Ég hefði getað farið þarna inn á og gert helmingi betur Það voru blendnar tilfinningar hjá Sverri Þór Sverrissyni, þjálfara Keflavíkur eftir sigur sinna manna gegn Breiðablik. Keflvíkingar áttu ekki góðan leik í kvöld, og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Keflvíkingar voru mun sterkari í seinni hálfleik og skóp það sigurinn. Fallegur sigur var þetta ekki hjá Keflavík, en sigur er sigur. „Já alveg klárlega. En við vorum bara arfaslakir í fyrri hálfleik. Ég var hrikalega pirraður hvað það var mikið baráttu- og viljaleysi og mönnum var bara alveg skítsama. Ég veit ekki hvort að þeir hafi haldið að Blikarnir hafi ætlað að koma hingað og reyna að tapa. Þeir með hörku mannskap. Við vorum bara í tómum vandræðum en ég er ánægður með viðsnúninginn í seinni hálfleik. Þá fórum við að berjast og leggja okkur fram í vörn.“ Blikar höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik, og fyrir leik bjuggust líklega fáir við því. Sverrir var ekki klár á því hvort um vanmat hafi verið að ræða. „Ég veit ekki. Við höfum ekki efni á að vanmeta einn né neinn. Þótt svo við séum búnir að vinna marga leiki í upphafi móts þá eru þetta allt hörkuleikir. Það er ekkert lið í þessari deild lélegt þannig að þú getir bara mætt og engan veginn verið að pæla í leiknum og vinna. Það er ekki þannig, og það verður ekki þannig. Við þurfum heldur betur að fara hugsa okkar gang ef við ætlum ekki að fara tapa fullt af leikjum því við erum ekki nógu vel mótiveraðir. Við getum ekki komið aftur svona eins og í kvöld.“ Aðspurður um hvað fór úrskeiðis hjá Keflvíkingum í fyrri hálfleik var svar Sverris einfalt. Hann þótti sínir menn vera latir. „Mér fannst menn bara hreinlega latir. Ég hefði getað farið þarna inn á og gert helmingi betur. Það væri sorglegt en ég hefði allavega nennt þessu. En menn svöruðu þessu í seinni hálfleik og það er mjög jákvætt. Við þurfum að halda áfram frá því sem við gerðum í seinni hálfleik. Þú átt aldrei að geta látið fólk segja við þig að þú hafir verið latur og ekki með vilja. Ég vil ekki sjá það aftur í mínu liði.“ Pétur: Við erum að læra að klára leiki á meðan þeir kunna að klára leiki Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks var að vonum svekktur eftir tap sinna manna gegn Keflavík í kvöld. „Við ætluðum auðvitað að vinna þetta. Við erum í baráttu um að vinna hvern einasta bardaga sem við tökum þátt í. Þetta er mjög erfiður heimavöllur, og þeir kláruðu þetta bara.“ Breiðablik voru með yfirhöndina í leiknum fyrstu 25 mínúturnar og spiluðu þeir feiknavel á þessum mínútum en duttu aðeins niður eftir það. Pétur segir að reynsla Keflavíkur hafi haft yfirhöndina í kvöld. „Það er bara reynsla hjá þeim. Í sjálfu sér spiluðu þeir ekki nema einn og hálfan leikhluta góðann. Þannig við unnum þá í góðum leikhlutum en það skiptir engu máli. Við erum ný komnir upp úr fyrstu deild á meðan leikmenn eru að koma úr háskóla og atvinnumennsku sem eru í þessu liði og þar liggur kannski munurinn. Við erum að læra að klára leiki á meðan þeir kunna að klára leiki.“ Breiðablik getur tekið margt jákvætt úr þessum leik en fyrirfram voru líklega ekki margir sem bjuggust við eins jöfnum leik og raunin varð. „Við erum að leggja okkur fram og það er ný maður að koma inn og hann fellur ágætlega inn í þetta. Það er kannski það jákvæða.“ Hörður Axel: Það sem Sverrir sagði í hálfleik er ekki sjónvarpshæft Hörður Axel Vilhjálmsson, leikmaður Keflavíkur átti flottan leik í sigri á Breiðablik í kvöld. Hann var þó ekkert alltof sáttur með spilamennsku Keflavíkurliðsins í heild sinni, þá sérstaklega í fyrri hálfleik. „Við vorum mjög flatir og lélegir í seinni hálfleik en snérum svo við blaðinu í seinni hálfleik. Við komum af krafti inn í seinni hálfleikinn. Við skrúfuðum upp kraftinn sérstaklega varnarlega og þá kemur hitt með. Við fengum auðveldar körfur og svo kviknaði heldur betur á Craion.“ Aðspurður hvað fór úrskeiðis í fyrri hálfleik var svar Harðar einfalt. Það var allt sem fór úrskeiðis. „Það var í rauninni bara allt. Við vorum seinir aftur og vorum að slútta illa sóknarlega sem gefur þeim færi á að hlaupa á okkur í bakið. Við vorum ekki að stíga út. Við vorum latir varnarlega, bæði hvað varðar færslur og einn á einn varnarleik þannig að þeir fóru auðveldlega framhjá okkur. Það var ansi mikið sem fór úrskeiðis í fyrri hálfleik.“ Sverrir Þór, þjálfari Keflavíkur var alls ekki sáttur með spilamennsku Keflavíkur í fyrri hálfleik, og segir Hörður að hann hafi látið leikmennina heyra það í hálfleik. Hvað hann sagði nákvæmlega sagði taldi Hörður ekki vera sjónvarpshæft. „Það er nú ekki sjónvarpshæft held ég. Hann lét okkur heyra það sem við þurftum að heyra og það virkaði, en það á ekki að þurfa. Við erum það gamlir og við erum það reyndir að við eigum að bera virðingu fyrir öllum þeim sem við spilum á móti og mæta í alla leiki eins, ekki bara á móti þeim sem við teljum okkur vera á pari við. Mér fannst fyrri hálfleikurinn vera svolítið framhald af Grindavíkurleiknum sem ég hef áhyggjur af. Ég vona að við tökum þetta og notum þetta sem víti til varnaðar.“ Hörður segir að það hafi verið ákveðið vanmat hjá Keflvíkingum í kvöld, eða það hafi allavega litið þannig út. „Það leit þannig út. Þegar menn leggja sig ekki fram, þá er það ekkert annað en vanmat. Við verðum samt að átta okkur á því að við erum að keppa, og það er gaman að keppa. Við verðum að hafa gaman að því sem við erum að gera. Ekki bara mæta hingað því það er leikur klukkan 19:15. Það leit svolítið þannig út í fyrri hálfleik, það var engin gleði í því sem við vorum að gera. Við þurfum að rífa okkur upp.“
Körfuboltakvöld rifjaði upp gamlar minningar: Hermann skammaðist sín fyrir slaufuna og gelið í hárinu