Samfélagsmiðillinn Facebook hyggst bjóða notendum sínum upp á nýjan möguleika í skilaboðasendingum, að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu. Notendur munu fljótlega geta þurrkað út skilaboð á Facebook Messenger sem þeir sjá eftir að hafa sent.
Tilkynning um viðbótina var birt í kynningu fyrir nýja uppfærslu á samskiptaforriti Facebook, Messenger.
„Á döfinni: Fjarlægðu skilaboð úr spjallþræði eftir að þau hafa verið send. Ef þú sendir óvart ranga mynd, rangar upplýsingar eða sendir skilaboðin í rangan þráð, geturðu auðveldlega leiðrétt mistökin með því að fjarlægja skilaboðin innan tíu mínútna frá sendingu,“ segir í tilkynningunni.
Hingað til hafa notendur getað eytt skilaboðum sem þeir senda á Messenger en skilaboðin þurrkast þó aðeins út þeirra megin. Þetta er því í fyrsta skipti sem boðið er upp á að fjarlægja skilaboð áður en notandinn á hinni línunni sér þau.
Þannig munu margir eflaust sjá not fyrir hinn nýja möguleika, sem kemur sér eflaust vel þegar eitthvað er sent í óðagoti – eða jafnvel ölæði.
Sjálfur hefur Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, notast við sambærilega viðbót í skilaboðasendingum sínum. Hann var harðlega gagnrýndur á dögunum eftir að upp komst að Facebook hafði eytt margra ára gömlum skilaboðum sem hann hafði sent öðrum notendum.
