Ríkisstjórn Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, virðist ætla að hanga saman eftir ákvörðun varnarmálaráðherrans Avigdor Lieberman og flokks hans að segja skilið við stjórnina í þeim tilgangi að knýja fram nýjar kosningar.
Þetta varð ljóst eftir að menntamálaráðherrann Naftali Bennett tilkynnti að flokkur hans, Heimili gyðinga, myndu áfram eiga hlut að ríkisstjórn. Bennett hafði áður gefið í skyn að hann myndi einnig segja af sér.
Netanyahu hefur á síðustu dögum átt í viðræðum við ráðherra í ríkisstjórn sinni, eftir að Lieberman tilkynnti um afsögn sína vegna vopnahléssamnings ísraelskra stjórnvalda við uppreisnarmenn á Gasa.
Bennett hafði áður sagst munu hætta í ríkisstjórn, nema að hann yrði sjálfur gerður að nýjum varnarmálaráðherra stjórnarinnar. Netanyahu er nú yfir ráðuneyti varnarmála eftir afsögn Lieberman.
Með eins flokks meirihluta
Eftir að Lieberman og flokkur hans, Yisrael Beitenu, sögðu skilið við ríkisstjórn eru stjórnarflokkarnir með eins manns meirihluta á 120 manna þjóðþingi Ísraela, Knesset.
Flokkur Bennett er sá þriðji stærsti í samsteypustjórn Netanyahu. Sagði Bennett eftir fund sinn með forsætisráðherranum að hann og dómsmálaráðherrann Ayelet Shaked myndu áfram sitja í ríkisstjórn svo fremi sem forsætisráðherrann taki á „hinni miklu öryggiskrísu“ landsins.
Ríkisstjórn Netanyahu lifir af í bili

Tengdar fréttir

Þunnur meirihluti hjá Netanjahú
Vopnahléið sem Ísraelar sömdu um við Hamas-samtökin eftir átök undanfarinna daga á Gasasvæðinu dregur dilk á eftir sér.

Reynir að halda lífi í ríkisstjórn sinni
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segist leita allra leiða til að koma í veg fyrir fall ríkisstjórnar sinnar í kjölfar afsagnar varnarmálaráðherra landsins.

Varnarmálaráðherra Ísrael segir af sér og kallar eftir kosningum
Avigdor Liberman segir það mikil mistök að hafa samþykkt vopnahlé við Hamas-liða og gagnrýnir herin fyrir takmörkuð viðbrögð við árásum frá Gasa.