Svissneskur ríkisborgari var handtekinn í Marrakesh í Marokkó í dag vegna morðanna á tveimur norrænum konum, Maren Ueland og Louisu Vesterager Jespersen.
Í tilkynningu frá lögreglu í Marokkó segir að maðurinn sé grunaður um tengsl við aðra menn sem handteknir hafa verið vegna málsins. Þá hafi hann átt þátt í að sannfæra menn í Marokkó og nágrannalöndum um að skipuleggja hryðjuverk gegn útlendingum og lögregluyfirvöldum í landinu. Einnig er maðurinn sagður hafa þjálfað einhverja af mönnunum í bogfimi.
Maðurinn hefur ekki verið nafngreindur en í tilkynningu lögreglu segir að hann sé með spænskan ríkisborgararétt, auk þess svissneska, en búsettur í Marokkó.
Alls hafa nítján karlmenn nú verið handteknir í tengslum við morðin á Maren og Louisu, þar af eru fjórir höfuðpaurar sem svarið höfðu hryðjuverkasamtökunum ISIS hollustueið viku áður en þeir létu til skarar skríða. Yfirvöld í Marokkó hafa þó gefið það út að mennirnir hafi ekki framið voðaverkið í beinu samráði við samtökin.
Vegfarandi gekk fram á lík Marenar og Louisu í grennd við bæinn Imlil í Atlasfjallgarðinum í Marokkó mánudaginn 17. desember en þær höfðu verið myrtar á hrottalegan hátt. Maren og Louisa stunduðu báðar nám við Háskólann í Þelamörk í Noregi og voru saman á mánaðarlöngu bakpokaferðalagi um Marokkó.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Svisslendingur handtekinn í tengslum við morðin á Maren og Louisu

Tengdar fréttir

„Hafi bróðir minn gert þetta þá á hann skilið að deyja“
Said Ouziad, eldri bróðir Youness Ouazid, eins mannanna sem grunaður er um morðin á Maren Ueland og Louisu Vesterage Jespersen í Marokkó í vikunni, segir að bróðir sinn eigi skilið að deyja hafi hann gerst sekur um glæpinn.

Lögregla í Marokkó: „Þeir voru þarna til að drepa ferðamenn“
Fjórmenningarnir sem hafa verið handteknir vegna gruns um að hafa myrt þær Maren Ueland og Louisu Vestager Jespersen höfðu það að markmiði að drepa ferðamenn þar sem þeir voru staddir í Atlasfjöllum á mánudagsmorgun.

Níu til viðbótar handteknir vegna morðanna á Maren og Louisu
Níu voru handteknir í gær og í dag og er talið að þeir tilheyri sömu samtökum og þeir fjórir sem voru þegar í haldi vegna morðanna, en málið er rannsakað sem hryðjuverk.