Pallbíll valt á Þrengslavegi á áttunda tímanum í morgun. Bílstjórinn var einn í bílnum en hann er ekki talinn alvarlega slasaður, samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Árnessýslu.
Pétur Pétursson hjá Brunavörnum Árnessýslu segir í samtali við Vísi að tilkynning hafi borist um veltuna skömmu fyrir klukkan átta. Tilkynnandi ók í burtu og var viðbragðsaðilum því ekki ljóst hversu alvarlegt slysið var fyrr en komið var á vettvang.
Ekki þurfti að beita klippum en maðurinn var kominn inn í sjúkrabíl um klukkan átta. Viðbragsaðilar frá Brunavörnum Árnessýslu á Þorlákshöfn, tveir sjúkrabílar frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands auk lögreglu voru sendir á slysstað.
Pétur segir í samtali við Vísi að slysið í dag sýni hversu mikilvægt það sé að fólk stoppi til að kanna aðstæður, keyri það fram á slys. Þannig geti viðbragðsaðilar metið hversu fjölmennt lið þurfi að senda á vettvang.
Bílvelta á Þrengslavegi
Kristín Ólafsdóttir skrifar
