Þetta sýna nýjar tölur Þjóðskrár um íbúafjölda í sveitarfélögum frá 1. janúar. Mikil fjölgun hefur verið á Suðurnesjum á síðustu árum og því fyrirséð að á einhverjum tímapunkti yrði Reykjanesbær fjórða fjölmennasta sveitarfélagið. Það sæti hefur Akureyri skipað í áratugi.

Akureyri hefur vaxið hægt en örugglega síðustu áratugi á meðan sveitarfélög í námunda við höfuðborgina hafa vaxið mjög hratt undanfarin ár. Sama má segja um lítil sveitarfélög í nágrenni við Akureyri sem njóta góðs af þeirri nálægð. Hörgársveit til að mynda stækkar um rúm sex prósent, hlutfallslega sama og Reykjanesbær. „Það er auðvitað keppikefli okkar Akureyringa að vera eitt af stærstu sveitarfélögum landsins. Eyjafjarðarsvæðið er vaxtarsvæði og í heild sinni sterkt samfélag,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Kjartan Már segir ekkert benda til annars en að vöxturinn haldi áfram í Reykjanesbæ og að til bæjarins komi einstaklingar hvaðanæva úr heiminum til að starfa við ferðaþjónustu. „Fjölgunin er að mestum hluta útlendingar sem koma hingað til að vinna á Keflavíkurflugvelli,“ segir Kjartan Már. „Það er ekkert sem bendir til annars en að þetta haldi áfram nema stórkostlegt bakslag verði í starfsemi vallarins eða flugfélaganna sem fara um völlinn.“