Í lögum um þingfararlaun er mælt fyrir um að alþingismenn, sem eru formenn stjórnmálaflokka sem hlotið hafa að minnsta kosti þrjá þingmenn kjörna og eru ekki jafnframt ráðherra, fái greitt 50 prósenta álag á þingfararkaup. Þessi aukagreiðsla nam 551 þúsund krónum hjá Ingu Sæland í nóvember síðastliðnum. Hún var þá með samtals 1.652 þúsund krónur í mánaðarlaun.
Flokkur fólksins fékk eins og kunnugt er fjóra þingmenn kjörna í kosningunum haustið 2017, þar með talda Ingu Sæland, formann flokksins. Auk hennar náðu kjöri þeir Guðmundur Ingi Kristinsson, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson. Tveir þeir síðarnefndu voru reknir nauðugir úr Flokki fólksins í lok nóvember síðastliðins í uppgjöri eftir Klausturmálið svokallaða.

„Flokkurinn var kosinn inn með fjórum mönnum og starfar sem þingflokkur í skilningi þingskapa,“ segir Helgi.
Í þingskaparlögum er kveðið á um að minnst þrjá þingmenn þurfi til að mynda þingflokk. Helgi vísar hins vegar til þeirrar greinar laganna sem kveður á um að tveir þingmenn geti myndað þingflokk hafi verið til hans stofnað strax að loknum kosningum og þingmennirnir séu af lista sama flokks eða samtaka. Þetta á þá við um þau Ingu Sæland og Guðmund Inga.
Öðru máli gildir um Ólaf og Karl Gauta sem geta ekki stofnað eigin þingflokk aðeins tveir saman. Þar til þeir voru reknir var Ólafur formaður þingflokks Flokks fólksins. Sem slíkur fékk hann aukalega 165 þúsund króna álagsgreiðslu. Þessi upphæð hefur nú færst yfir til Guðmundar Inga sem tekinn er við sem þingflokksformaður og þingfararkaup hans hefur þar með hækkað úr 1.101 þúsund krónum á mánuði í 1.266 þúsund. Laun Ólafs lækka að sama skapi.
„Nei, ég man ekki eftir fordæmi,“ svarar skrifstofustjóri Alþingis aðspurður hvort fordæmi séu fyrir þeirri stöðu sem lýst var hér að framan.