Hugrún sagði í viðtali í Kastljósi í gær að fyrirtæki og stofnanir hafi notið slíkrar handleiðslu Jafnréttisstofu. Vísir spurði Hugrúnu nánar út í þau ummæli. Hugrún segir þetta ekki umfangsmikinn þátt í starfsemi stofnunarinnar.
„Ráðgjöfin hefur aðalega snúið að myndefni auglýsinga sem almenningur hefur kvartað undan og gæti varðað við brot á 29. grein jafnréttislaga um auglýsingar,“ segir Hugrún og vísar til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
„Slík verkefni hafa verið nokkur á undanförnum árum og hafa verið nokkuð stöðug í fjölda.“
Rukka ekki fyrir ráðgjöfina
Hversu mörg fyrirtæki og stofnanir eru þetta sem hafa kallað til aðstoð frá sérfræðingum Jafnréttisstofu?„Það eru ekki margir aðilar sem hafa óskað eftir svona ráðgjöf og á árs grundvelli eru þetta líklega 2-3 aðilar en málaskrá okkar er ekki sundur greind með þeim hætti að ég geti svarað þessu án mikillar yfirsetu yfir gögnunum.“

„Verkefnin eru svo eðlis ólík að ég á erfitt með að svara þessu. Seðlabankinn er eina stofnunin sem við höfum rætt listaverk við með þeim hætti sem þegar hefur verið lýst. Önnur umræða hefur verið um myndir í almannarými starfsmanna sem ekki eru listaverk.“
Ólafur spyr út í afstöðu Katrínar
Hugrún segir Jafnréttisstofu ekki þiggja greiðslu fyrir ráðgjöf heldur er svo litið á að hún sé hluti af lögbundnu hlutverki stofnunarinnar.
Ólafur vildi fá fram viðbrögð Katrínar sem æðsta yfirmanns bankans; hvert hennar viðhorf væri til þessarar ákvörðunar? Og hvort, fyrst Seðlabankanum veittist svo erfitt að fara með þessi listaverk, vert væri að bankinn myndi fela Listasafni Íslands varðveislu síns viðamikla listaverkasafns?
Katrín segir málið tvíþætt
Katrín sagði að í sínum huga væri málið tví- ef ekki þríþætt, þá að teknu tilliti til fyrirspurnarinnar. Katrín sagðist vera mikill talsmaður listræns frelsis. „Ég tel að við eigum aldrei að skerða hið listræna frelsi og það er grundvallastjórnarmið í mínum huga.“ Katrín segir að í öðru lagi virðist, samkvæmt fréttaflutningi af málinu, þetta listaverk þar sem það var og í því samhengi sem það var þar hafa haft áhrif á líðan starfsmanna.
Katrín sagðist hafa skilning á því að list gæti stuðað og mikilvægt að stofnanir ríkisins sýndi sínum starfsmönnum nærgætni og tillitssemi. En hún væri algerlega á móti því að list sem sýndi nekt eða fælu í sér pólitísk skilaboð, væru bönnuð. Hún opinberaði að hún væri sjálf með verk uppi á vegg á sínu heimili, með pólitísku inntaki, sem eflaust gæti stuðað ýmsa. En, það væri allt í lagi. Viðkomandi þyrfti þá ekkert að koma aftur í heimsókn til sín.
Þá sagðist Katrín ekki vita betur en Seðlabankinn búi vel að sínu listaverkasafni. Og væri í stakk búinn til að gera svo.