Talsverð umræða hefur sprottið fram í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum eftir að spurðist að bankinn hafi, af tillitssemi og vegna kvörtunar sem kom frá starfsfólki og að höfðu samráði við Jafnréttisstofu, tekið niður málverk eftir Gunnlaug Blöndal.
Um er að ræða módelteikningu; málverk af berbrjósta konu sem máluð var um miðja síðustu öld.
Yfirmenn með myndir af berum konum á skrifstofum sínum
Að sögn Stefáns Jóhanns var þetta í kjölfar umræðna innan bankans:„Starfsmenn hafa lýst þeirri skoðun sinni að ekki sé æskilegt að konur þurfi að bera upp erindi sín við karlkyns yfirmenn með málverk af berum konum fyrir framan sig. Með hliðsjón af jafnréttisstefnu, stefnu gegn einelti og áreitni var ákveðið að bregðast við þessum ábendingum, meðal annars með hliðsjón af jafnréttisáætlun.“

Tvö verk eftir Blöndal tekin niður
Leiða má líkur að því að í öðru tilvika sé um að ræða verk sem sjá má hér ofar en Grétar Þór Sigurðsson háskólanemi segir á Twittersíðu sinni: „Módel, um 1950-55, olía, 70 x 90 cm. Þetta er ein þriggja mynda í eigu Seðlabankans sem sýnd var á yfirlitssýningu á verkum Gunnlaugs Blöndal í LÍ árið 2006 og sú eina sem sýnir nekt. Því má leiða að því líkur að þetta sé verkið sem fór svo fyrir brjóstið á starfsmönnum SÍ.“
Erling Jóhannesson forseti BÍL hefur gagnrýnt það meðal annars að ekki liggi fyrir nægjanlegar upplýsingar um listaverkaeign bankans og hefur lýst því yfir að það sé áhyggjuefni hvernig staðið er að varðveislu þessara verka sem eru eftir marga af okkar helstu myndlistarmönnum og þannig dágóður biti listasögu okkar, sem ekki er löng í myndlistinni.
Rannveig haft myndina fyrir augum
Ekki er ofsagt að segja umræðuna hafa flengst um víðan völl, svo sem hefur átakið Free the nipple verið nefnt til sögunnar; hvort hugsanlega megi greina þar mótsögn í því að Jafnréttisstofa hafi ráðlagt Seðlabankamönnum að taka myndina niður af jafnréttisástæðum þegar litið er til hins vel heppnaða átaks Free the nipple?
Eins og sjá má á orðum Stefáns Jóhanns voru verkin sem tekin voru niður á skrifstofum yfirmanna, Rannveig auk nokkurra annarra umsækjenda starfaði í Seðlabankanum þannig að víst er að hún þekki verkið harla vel.