Annars er ekkert yfir þessum viðsnúningi að kvarta. Greining hans á rotnu fjármálakerfinu, The Big Short frá 2015, var vel heppnuð og nú býður hann með Vice upp á óþægilega skemmtilega tveggja klukkustunda vatnspyntingu.
Vice er sérkennileg mynd, djörf samsuða heimildarmyndar og pólitískrar satýru sem því miður er svo skelfilega raunsönn að það sækir að manni köfnunartilfinning að myndinni lokinni.
Eitt af því sem gerir Vice svo magnaða er að hún minnir okkur ruddalega á að eftir aðeins tvö ár með örvitann, sem kann ekki að hnýta á sig bindi, í Hvíta húsinu erum við búin að gleyma að það eru ekki nema rétt tíu ár síðan þar véluðu um miklu verri og hættulegri menn en Donald Trump.
Fláráður varaforseti
Myndin hverfist um Dick Cheney, alræmdan varaforseta George W. Bush, og rekur hvernig drykkfelldur lúser rífur sig upp og klifrar til æðstu metorða í Washington og endar sem valdamesti varaforseti Bandaríkjanna fyrr og síðar.Fámáll og fláráður kemur Cheney sér í þá stöðu að hann og hans menn ráða öllu sem þeir vilja ráða með strengjabrúðuna George W. Bush í forgrunni. Voða klárir karlar sem létu ekkert gott af sér leiða en græddu á tá og fingri á meðan.
Christian Bale hefur unnið ófáa leiksigra á ferlinum en hefur aldrei risið jafn hátt og í túlkun sinni á Cheney. Þetta er miklu meira en bara enn eitt grímubúningahlutverkið þar sem leikara er breytt í raunverulega persónu með slatta af aukakílóum og haug af farða. Bale beinlínis umbreytist í Cheney og skilar þessum hættulega manni óþægilega vel.
Amy Adams er litlu síðri í hlutverki eiginkonunnar, Lynne Cheney, sem er mikill áhrifavaldur þar sem það er hún sem rífur vonlausa barfluguna upp á rassgatinu, smitar metnaðargirni sinni yfir á rónann og keyrir hann áfram til illra verka.
Þá er Sam Rockwell alveg dásamlegur Bush þótt hann virki að vísu aðeins meira sjarmerandi en fyrirmyndin en jafn heimskur. Sá frábæri gamanleikari Steve Carell flýgur hátt sem sótrafturinn Donald Rumsfeld sem er absúrdkómískur í þráhyggju sinni um að ráðast inn í Írak.
Allt er þetta sem sagt svolítið fyndið þótt þetta sé síður en svo hlægilegt enda sagan sem hér er sögð virkilega skelfileg. Ekki síst þar sem ekki sér enn fyrir endann á þeim hryllingi sem þessir kónar kölluðu yfir heimsbyggðina.
Súrrealísk samsuða
Vice er um margt óvenjuleg bíómynd og ekki hægt að segja að hún sé aðgengileg. Fyrstu 50 mínúturnar eða svo minna frekar á heimildarmynd en leikna kvikmynd. Er meira eins og áróðursverk úr smiðju Michaels Moore eða áramótaannáll RÚV með áherslu á fantabrögð Bush-klíkunnar.Ég hef heyrt eitthvað um að fólk hafi gefist upp á myndinni á þessum kafla en slíkt er mikið glapræði. Í fyrsta lagi er þessi hluti myndarinnar mjög áhugaverður og flæðir vel og síðan tekur enn betra við þegar McKay dúndrar í fimmta gír og gefur leikurunum lausan tauminn í túlkun á öllu þessu virkilega vonda fólki sem gætir þess þó að óhreinka aldrei á sér hendurnar.
Og sem heild smellur Vice saman sem áleitið og óvægið verk sem á erindi við okkur öll. Alltaf. Þetta er ekki falleg mynd en það er heimurinn ekki heldur og ekki skánaði hann við það að Cheney sá ekkert nema tækifæri í hryðjuverkaárásunum 11. september 2001. Tækifæri sem hann því miður nýtti til hins ýtrasta „and the rest is history“, eins og sagt er, nú eða bara kvikmyndin Vice.
Vituð þér enn, eða hvað?
Um margt undarleg og erfið mynd sem segir mikilvæga sögu sem okkur væri hollast að rifja upp og gleyma aldrei. Og já, Christian Bale er frábær Dick Cheney. Skelfilega frábær.