Ég held að Lilja sé persóna sem mjög margar konur muni tengja við að einhverju leyti. Hún kemur sér í aðstæður sem verða stöðugt verri og sekkur æ dýpra.“
Ekki með fullkomnunaráráttu
Þóra er ein af Svikaskáldum en auk hennar eru í hópnum Fríða Ísberg, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Melkorka Ólafsdóttir, Sunna Dís Másdóttir og Þórdís Helgadóttir. Saman hafa þær gefið út tvær ljóðabækur. Spurð hvort samstarfskonur hennar í Svikaskáldum hafi lesið yfir handrit þessarar fyrstu skáldsögu hennar segir Þóra: „Þær eru vinkonur mínar og við erum skáldagengi og lesum mikið yfir hver hjá annarri. Þær lásu yfir hjá mér og gáfu mér góð ráð. Hugmyndir fá oft vængi ef maður talar um þær við aðra. Það er einmanalegt að skrifa bók, maður er einn heima að puða og það er mjög þakklátt að hafa uppbrot á því í samvinnu í þessum hópi.Við höfum gefið út tvær ljóðabækur og þá voru mjög strangar reglur í ritferlinu. Við höfum verið að að æfa okkur í því að vera ekki með fullkomnunaráráttu og hanga yfir texta of lengi í sjálfsgagnrýnis-kyrrstöðu. Svikaskáld voru eiginlega stofnuð til að þvo hendur okkar af þeirri vitleysu.“
Spurð hvort lýrík sé áberandi í skáldsögunni segir hún: „Já, og þegar líður á verkið verða kaflarnir æ styttri. Ég vildi láta textann leysast upp með Lilju, aðalpersónu sögunnar.“