Þetta kemur fram í dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í dag en Artur var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir sérlega hættulega líkamsárás. David hlaut sex mánaða dóm fyrir að hafa tekið þátt í annari líkamsárás á dyravörð ásamt Arturi og tveimur öðrum óþekktum mönnum.
Í dóminum segir að meðal gagna séu upptökur úr öryggismyndavélum þar sem sjáist hvar Artur og David komi að skemmtistaðnum þar sem þeir ráðist umsvifalaust á dyraverðina tvo. Einnig megi sjá hvernig Artur nái dyraverðinum eftir að hann hafi hörfað inn á skemmtistaðinn. Á myndbandinu sjáist einnig hvernig Artur hrindi dyraverðinum sem í framhaldinu steypist fram fyrir sig og ofan í tröppur sem liggja að útidyrum staðarins.
Fyrir dómi neitaði Artur að hafa hrint dyraverðinum en héraðsdómi þótti með myndbandsupptökunum sannað að hann hafi hrint dyraverðinum, líkt og hann var ákærður fyrir.

„Þegar myndbönd af árás ákærðu og félaga þeirra á brotaþola eru skoðuð þá sést að ákærðu, ekki síst ákærði Artur, gengur fram af mikilli heift. Það er niðurstaða dómsins að ætlun ákærða hafi verið að skaða brotaþola og að honum hafi ekki getað dulist að afleiðingar af atlögu hans gætu orðið alvarlegar,“ segir í dómi héraðsdóms.
Talið er að víst að dyravörðurinn muni þurfa aðstoð ævilangt en afar ólíklegt sé að hann nái nokkrum bata sem hafi áhrif á hans getu. Voru honum dæmdar sex milljónir í bætur vegna árásarinnar.
Dóm Héraðsdóms má lesa hér.