Bólusetningar á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu gengu vel í dag en hægt var að fá mislingabólusetningu frá klukkan 12:00 til 15:00. Frá því er greint á vef Heilsugæslunnar.
Á hverri stöð munu 30 til 90 börn hafa verið bólusett auk þess að nokkrir fullorðnir einstaklingar létu bólusetja sig. Aftur verður opið á heilsugæslustöðvum á morgun frá 12:00 til 15:00 og eiga allar stöðvar enn til bóluefni.
Boðið er upp á bólusetningar fyrir börn 6-18 mánaða gömul og fyrir fullorðna fædda 1970 eða síðar. Í frétt Heilsugæslunnar er lýst yfir ánægju yfir þeim mikla fjölda sem kom í bólusetningu með litlum fyrirvara og eru óbólusettir hvattir til að fjölmenna.
