Ríkissjóður fékk reikning upp á tæpar 1,7 milljónir króna eftir að forsætisráðherra bauð 35 erlendum gestum Hringborðs norðurslóða í kvöldverð í Hellisheiðarvirkjun í lok október. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var gestgjafi í kvöldverðinum í fjarveru Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, en Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Hringborðs norðurslóða, kom einnig að skipulagningu.
Hringborð norðurslóða 2018, eða Arctic Circle, fór fram í lok október en reikningur fyrir hinni veglegu veislu barst ekki forsætisráðuneytinu fyrr en í síðasta mánuði. Var hann birtur á vefnum Opnir reikningar sem ætlað er að auka gagnsæi í opinberum innkaupum. Reikningurinn er frá Orku náttúrunnar (ON) fyrir risnukostnaði og hljóðar upp á alls 1.684.445 krónur.

Fréttablaðið kallaði eftir frekari upplýsingum um tilefni þessarar greiðslu hjá Ágústi Geir Ágústssyni, skrifstofustjóra ráðuneytisins. Hann upplýsti að reikningurinn sé vegna kvöldverðar fyrir 35 erlenda gesti frá mörgum þjóðlöndum í tengslum við Hringborðið. Fréttablaðið óskaði einnig eftir afriti af reikningnum frá ON þar sem fram kemur að hann hljóðaði upp á tæpar 1,8 milljónir. Ráðuneytið gerði hins vegar athugasemd við upphæðina samkvæmt heimildum Fréttablaðsins og fékk tæpar 270 þúsund krónur í afslátt. Með VSK endaði reikningurinn í tæpum 1,7 milljónum.
„Valið var að staðsetja kvöldverðinn við Hellisheiðarvirkjun til þess að kynna hana og kolefnisbindingarverkefni ON samhliða fyrir hinum erlendu gestum.“
Kostnaðurinn helgast meðal annars af því að veislan fór fram í sýningarsal virkjunarinnar sem hvorki er innréttaður fyrir veislur né með aðgang að eldhúsi.
„Þurfti því að innrétta salinn af þessu tilefni og setja upp eldunaraðstöðu,“ segir í svari ráðuneytisins. Miðað við upphæð reikningsins og gestafjölda nam kostnaður við hvern gest því nærri 50 þúsund krónum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem gestum ráðstefnunnar er boðið út að borða á kostnað ríkissjóðs. Fréttablaðið fjallaði um það í desember 2017 þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bauð 13 manna sendinefnd frá Kyrrahafseyjum, auk innlendra gesta í þriggja rétta máltíð í Bláa lóninu. Reikningurinn þá nam 400 þúsund krónum.