Alþjóðalögreglan Interpol hefur lýst eftir Jóni Þresti Jónssyni en ekkert hefur spurst til hans síðan hann hvarf í Dyflinni á Írlandi fyrir rúmum mánuði.
Undanfarnar vikur hefur fjölskylda Jóns Þrastar dvalið á Írlandi og leitað hans í samvinnu við þarlend lögregluyfirvöld. Þá hefur fjölskyldan komið fram í fjölmiðlum til að vekja athygli á hvarfi Jóns en málið hefur vakið mikla athygli í Írlandi.
Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, sagði í samtali við Fréttablaðið í gærkvöldi að staðan væri nokkurn veginn óbreytt. Lögreglan sé nú að vinna að því að fara yfir mikið magn af myndbandsupptökum svo hægt megi rekja ferðir Jóns daginn sem hann hvarf, þann 9. febrúar.
Þá segir Davíð það vera mikinn sigur að Interpol hafi nú lýst eftir Jóni Þresti.
