„Einu nýju gögnin sem koma til greina hafa ekkert nýtt fram að færa en ég þekki það hvers konar einbera þvælu þetta fólk er fært um,“ segir Bára í færslu á Facebook og brást við áliti sem siðanefnd Alþingis skilaði forsætisnefnd en meirihluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að samræðurnar sem fóru fram á barnum Klaustri á milli þingmanna Miðflokksins og fyrverandi þingmanna Flokks fólksins geti ekki talist einkasamtal.
Í yfirlýsingu sem Miðflokkurinn sendi frá sér í gærkvöldi sögðu þingmennirnir að það væri fráleitt að birta álit áður en frestur til að skila andmælum rynni út. „Nýjar og veigamiklar“ upplýsingar, eins og Miðflokksmenn komast sjálfir að orði í yfirlýsingunni, lægju fyrir og því væri mat siðanefndarinnar byggt á röngum forsendum.
Bára segist hvorki vera líkamlega né andlega á besta stað til glíma við „þessar endalausu smjörklípur“ eins og Bára segir í færslu sinni. Hún spyr þá jafnframt:
„Hvaða nýju samsæriskenningu eigum við að láta troða upp í okkur núna? Er þessu fólki algerlega ómögulegt að taka ábyrgð á sínum gjörðum?“