Fyrri umræða um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar hófst á Alþingi í dag. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði greiningar á mismunandi þróun efnahagsmála liggja fyrir ef til að mynda yrðu áföll í flugrekstri á Íslandi. Ýmsir óvissuþættir gætu haft áhrif en fjármálaáætlunin byggði á gildandi hagspám.
„Það hvernig vinnumarkaðurinn aðlagast er líka mikilvægt atriði. Hver verður niðurstaða samninga sem verða gerðir. Þetta eru allt áhrifaþættir sem við vitum ekki endanlega niðurstöðu um þar sem við hefjum þessa umræðu hér í dag,” sagði Bjarni.
Áhrif aðstæðna í flugi gætu hins vegar orðið umtalsverð á nettó útflutningstekjur, gengi krónunnar, verðbólgu og fleira, þótt ytri aðstæður þjóðarbúsins væru enn mjög hagstæðar.

Stjórnarandstaðan hafði ýmislegt að athuga við fjármálaáætlunina. Þorsteinn Víglundsson varaformaður Viðreisnar sagði margt benda til að afkoman verði lakari en gert væri ráð fyrir og forsendur hennar brostnar.
„Það er ágætt að muna gildi laganna um opinber fjármál. Sem meðal annars eru varfærni, sjálfbærni og festa. Það er engin varfærni í þessari fjármálaáætlun. Hún er fallin við birtingu,” sagði Þorsteinn.
Fjármálaráðherra sagði fjárlög þessa árs hafa verið afgreidd með góðum afgangi.
„Varfærnin í þessari áætlun birtist einmitt í því að við erum búin að taka til hliðar 30 milljarða miðað við hagspárnar í afgang. Sem er þá eins og stuðpúði, eins og sjóður sem hægt er að ganga á til að lina afleiðingarnar af því ef hagspárnar reynast ekki réttar,” sagði Bjarni Benediktsson.