Fjölmiðlabann var sett á skyndilega hjá ríkissáttasemjara stuttu eftir að fundur hófst í kjaradeilu VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðs Grindavíkur og Framsýnar við Samtök atvinnulífsins.
Fundurinn hófst klukkan 10 og var spennuþrungið andrúmsloft í Karphúsinu áður en fundurinn hófst.
Núna rétt fyrir klukkan hálfellefu bað skrifstofustjóri ríkissáttasemjara fjölmiðla um að yfirgefa húsið því breytt fyrirkomulag yrði á fundinum.
Að öllu óbreyttu skella verkföll rúmlega 2000 hótelstarfsmanna og rútubílstjóra sem eru félagsmenn í Eflingu og VR á á miðnætti í kvöld. Er áætlað að þau standi í sólarhring. Mjakist hins vegar eitthvað hjá sáttasemjara í dag gæti verkföllum verið frestað.
Það hefur verið stál í stál í kjaradeilunni undanfarnar vikur en í febrúar slitu verkalýðsfélögin viðræðum við SA og hófu undirbúning verkfallsaðgerða.
Þrátt fyrir viðræðuslit heldur þó samtalið áfram og hefur ríkissáttasemjari heimild til þess að boða aðila til fundar á tveggja vikna fresti og er fundurinn í dag boðaður samkvæmt því. Síðasti fundur aðila var því fyrir tveimur vikum.
Fréttin hefur verið uppfærð.

