Í fréttinni segir að konan, sem er 28 ára, hafi verið að reyta arfa þegar flugurnar, sem eru svokallaðar svitabýflugur, flugu upp í auga konunnar.
Hong Chi Ting, læknir sem starfar við Fooyin háskólasjúkrahúsið, segist hafa verið í áfalli þegar hann náði flugunum út, en þær voru um fjórir millimetrar á lengd.
Konan hefur verið útskrifuð af sjúkrahúsinu og er búist við að hún nái sér að fullu. Svitabýflugur, einnig þekktar sem Halictidae, laðast að svita og koma sér stundum fyrir á fólki til að drekka í sig svita fólks. Einnig er þekkt að þær drekka í sig tár úr fólki sem eru sérstaklega rík af prótíni.
Konan segist hafa verið að reyta arfa við leiði látinna ættingja þegar flugurnar flugu upp í vinstra auga hennar. Gerði hún upphaflega ráð fyrir að mold hafi hafnað í auga hennar.
Hún leitaði svo læknisaðstoðar nokkrum tímum síðar þar sem auga hennar var mikið bólgið og hún fann mikið til.