Hún lætur ekki mikið fyrir sér fara brauðgerðin á Böggvisstöðum sem ber nafnið Böggvisbrauð en þar hafa hjónin og tónlistarmennirnir Mathias Spoerry og Ella Vala Ármannsdóttir hafið brauðgerð. Hugmyndin fæddist fyrir um tveimur árum.
„Ég byrjaði að baka brauð, súrdeigsbrauð heima hjá mér og sá að fólk fannst þetta gott brauð, þannig að ég hugsaði um að búa til meira og selja það,“ segir Mathias.
Fyrimyndin er frönsk, kornið er franskt og franskur sérfræðingur kom til landsins til að smíða ofninn sem vegur 50 tonn og er hitaður upp í um 300 gráður með íslensku birki úr nærliggjandi skógum.
Gestir og gangandi geta virt fyrir sér brauðbaksturinn og ofninn klukkan þrjú í dag er Böggvisbrauð opnar formlega eftir um árs undirbúningsvinnu. En hvað er það sem dregur Mathias að brauðbakstrinum?
„Erfitt að segja, það er bara að vinna með deigið er rosalega skemmtilegt, rosalega góð tilfinning, finnst mér. Svo er það ferlið, að fara frá hráefni, vatn og hveiti, jafnvel korn, því ég er að mylla kornið á staðnum, blanda þetta saman og á endanum fá brauð. “