Fréttamenn Vísis náðu stuttlega tali af liðsmönnum Hatara eftir úrslitakvöldið í Eurovision þar sem Hatari hélt uppi palestínskum fána undir lok útsendingar, nánar tiltekið þegar stig Íslands úr símakosningunni voru tilkynnt.
„Þetta er allt samkvæmt áætlun og ég segi bara skál, með ást frá Íslandi,“ sagði Matthías Tryggvi Haraldsson, annar tveggja söngvara sveitarinnar þegar fréttamaður innti hann eftir svörum.
Hefur þetta einhverjar afleiðingar?
„Nei, ég efast um það. Við eigum eftir að ræða þetta við EBU og sjá hvað þeir hafa að segja, en ég held ekki. Þetta var ákvörðun listamannanna og það svo sem blandast engum hugur um það að þetta hefur aðeins legið í loftinu,“ sagði Felix og kvaðst feginn að þurfa ekki lengur að lifa í óvissu um hverju sveitin kynni að taka upp á.
„Þetta er það sem þau vildu og þetta var þeirra statement [yfirlýsing].“
Aðspurður sagðist Felix ekki hafa miklar áhyggjur af framvindu málsins næstu daga, en kvaðst þó verða feginn því að komast heim til Íslands á mánudaginn.
Eins og Vísir greindi frá fyrr í kvöld birti Einar Hrafn Stefánsson, trommugimp Hatara, myndband á Facebook síðu sinni þar sem sjá mátti öryggisverði taka fánana af meðlimum sveitarinnar.