Strætó bs. hefur ekki vitneskju um að bílstjórinn, sem ók strætisvagninum sem hafnaði utan vegar í Mosfellsbæ í dag, hafi áður fengið flog. Talið er að hann hafi fengið flogakast undir stýri og misst meðvitund, með fyrrgreindum afleiðingum.
Alls voru fjórir í strætisvagninum þegar hann fór út af veginum á öðrum tímanum í dag. Vagninn, sem var á leið 7 frá Mosfellsbæ í átt að Spönginni, rann niður talsverðan halla eftir bílastæði fyrir neðan veginn. Hann hélst þó alltaf á hjólunum, sem þykir mikil mildi, og voru meiðsl farþega og bílstjóra metin minniháttar.
Sjá einnig: Fékk flogakast undir stýri og vagninn hafnaði utan vegar
Bílstjórinn hefur ekið vögnum Strætó í yfir tuttugu ár, að sögn Guðmundar Heiðar Helgasonar upplýsingafulltrúa Strætó. Hann, ásamt einum farþega, var fluttur á slysadeild eftir slysið og var þá kominn til meðvitundar.
Guðmundur hefur eftir eiginkonu bílstjórans að hann gangist nú undir rannsóknir á spítala og margt bendi til flogakasts, sem bílstjórinn hafi ekki fengið áður. Guðmundur gerir ráð fyrir að bílstjórinn fari í leyfi frá störfum í kjölfar slyssins og staðan verði svo tekin aftur í framhaldinu.
Margar ástæður geta legið að baki flogaköstum og er flogaveiki aðeins ein þeirra, að því er fram kemur í umfjöllun um flogaveiki á Vísindavefnum. Þannig eru einstaklingar sem fá flog ekki endilega flogaveikir og þá er þekkt að fólk fái fyrst flog á efri árum.
Vinnu á vettvangi slyssins við Álafosskvos í Mosfellsbæ lauk fyrir stundu en búið er að koma bílnum upp á veginn og aka honum í burt. Einhverjar skemmdir urðu á vagninum við slysið en umfang tjónsins er þó enn ekki ljóst.
