Rússneska samfélagsmiðlastjarnan sem gripin var við utanvegaakstur í grennd við Jarðböðin í Mývatnssveit var sektuð um 450 þúsund krónur. Sektin var staðgreidd á lögreglustöðinni á Akureyri fyrr í dag.
Þetta staðfestir Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Akureyri. Segir hann að litið hafi verið til umfangs skemmdanna sem urðu á jarðveginum við utanvegaaksturinn við ákvörðun upphæðar sektarinnar. Lágmarkssekt er 350 þúsund krónur samkvæmt lögum um um náttúruvernd.
Ferðamaðurinn sem um ræðir er þekktur á samfélagsmiðlum, þá helst Instagram, en nafn hans er Alexander Tikhomirov. Hann hefur fengið kaldar kveðjur frá Íslendingum í gegnum Instagram-reikning sinn þar sem hann honum er tilkynnt að hann sé ekki lengur velkominn á Íslandi og hann beðinn um að koma aldrei aftur í Mývatnssveit.
„Árás Íslendinga. Guð minn góður. Af hverju eruð þið svona reið,“ skrifaði hann á Instagram þar sem hann deildi þessum kveðjum Íslendinga.
Tikhomirov þessi hefur um 318 þúsund fylgjendur á Instagram er förunautar hans eru með öllu minna, 11,600, 3,300 og 2,189 fylgjendur.
Sigurður Jónas Þorbergsson, einn landeigenda Reykjahlíðar, sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að förin eftir utanvegaaksturinn eigi eftir að sjást en ekki sé vitað á þessari stundu hvernig viðgerðum verður háttað.
