Gróðureldahættan hefur aukist undanfarin ár en þetta kom fram í áhættuskoðun almannavarna árið 2011. Hlýnandi veðurfar, breytingar í landbúnaði og aukin skógrækt eru helstu þættir í því að hættan hefur aukist.
Samkvæmt veðurspá er ekki úrkoma í kortunum næstu vikuna en áframhaldandi hlýindi líkt og hefur verið undanfarnar vikur. Því er fólk beðið um að sýna aðgát með opin eld og eldunartæki á gróðursælum svæðum, sérstaklega í Skorradal.
Fólk hugi að sér og nágrannanum
Bjarni Kristinn Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri Borgarbyggðar, segir stöðuna vera sambærilega og annars staðar á landinu. Mikill þurrkur er á svæðinu eftir blíðuna undanfarnar vikur og ekki rigningardropi fallið á svæðinu.Hann segir mikilvægt að fólk sé á tánum og fari varlega við meðferð eldfæra.
„Það verða allir að leggjast á eitt og gæta að sjálfum sér og nágrannanum. Ef eitthvað er óeðlilegt hjá nágrannanum í svona sumarhúsahverfum þá á bara að skipta sér af því,“ segir Bjarni í samtali við Vísi enda þurfi lítið til að stórslys verði ef eldur breiðist út á gróðursælum svæðum.
„Það þurfa allir að passa upp á þetta, sérstaklega að börn eða unglingar séu ekki að fikta með eldfæri,“ segir Bjarni.
Hann hvetur fólk til þess að gæta ítrustu varúðar og leggur áherslu á að fólk sé ekki að nota einnota grill þar sem mikil eldhætta fylgi þeim.