Skrifstofur Facebook í hinum svokallaða Kísildal Bandaríkjanna voru rýmdar sem og fjögur önnur nærliggjandi hús eftir að sjálfvirkir skynjarar í póstrými fyrirtækisins sýndu að snefilmagn af saríngasi væru utan á sendingu sem barst fyrirtækinu. Saríngas er öflugt taugaeitur sem hefur verið notað í efnavopnaárásum.
Áhyggjurnar reyndust óþarfar að lokum og sagði slökkviliðsstjórinn Jon Johnston við Reuters að ítarlegar prufur á svæðinu hafi leitt í ljós að ekkert sarín væri þar að finna. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem ástand sem þetta myndast, en sama skrifstofuhúsnæði var rýmt í desember vegna sprengjuhótunar.
„Til þess að gæta fyllstu varúðar rýmdum við næstu fjórar byggingar og hófum ítarlega rannsókn í samstarfi við yfirvöld á svæðinu. Yfirvöld hafa staðfest neikvæðar niðurstöður og hafa húsin verið opnuð á ný. Verklagsreglur okkar reyndust góðar til þess að takmarka hættu og tryggja öryggi starfsfólks,“ sagði upplýsingafulltrúi hjá samfélagsmiðlarisanum.
Óttuðust sarínárás á Facebook
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
