Karlmaður á áttræðisaldri sem slasaðist alvarlega í fjórhjólaslysi við Geysi í gærmorgun liggur enn þungt haldinn á Landspítalanum.
Þetta segir Elís Kjartansson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við Vísi.
Elís segir að slysið sé enn í rannsókn. Lögreglan á Suðurlandi hafi fengið aðstoð frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa á vettvangi og það hafi tekist að ná utan um vettvanginn í gær.
Fram kom í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi í gær að svo virtist sem ökumaður fjórhjólsins hefði misst stjórn á því með þeim afleiðingum að hjólið valt.
Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl til móts við þyrlu sem flutti hann á Landspítalann í Fossvogi.
