Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny var fluttur á sjúkrahús á sunnudag eftir að hafa fengið alvarlegt ofnæmiskast. Einn læknanna sem hlynnti honum segir kastið geta hafa verið vegna eitrunar af völdum óþekkts efnis.
Navalny var flýtt á sjúkrahús úr fangelsi en hann var að afplána 30 daga fangelsisvist fyrir að hafa hvatt til mótmæla sem fóru fram í gær. Á mótmælunum voru 1.400 manns handteknir.
Talskona hans, Kira Yarmysh, sagði að Navalny beri merki þess að hafa fengið bráðaofnæmiskast sem einkenndist af „alvarlegum bólgum í andliti og roða í húð.“
Læknir á spítalanum þar sem hann hlaut meðferð sagði í samtali við fréttastofu Interfax að Navalny hafi verið greindur með ofsakláða en liði nú betur.
Læknir sem hann hefur áður leitað til náði að skoða hann og tala við hann stuttlega í gegn um rifu á hurð að herbergi hans á sunnudag og sagði að hún gæti ekki útilokað að fyrir honum hafi verið eitrað.
„Við getum ekki útilokað að skemmdir á húð og slímhúðhafi hafi orðið af völdum eitrunar vegna óþekkts efnis sem gefið var með hjálp „þriðja aðila,““ skrifaði Anastasia Vasilyeva, læknirinn sem þekkti til hans, á Facebook.
Vasilyeva sagði að Navalny hafi haft útbrot á efri líkama, sár á húð og seyti úr auga og bað hún um að sýni af rúmfötum Navalny, úr húð og hári yrðu send til rannsóknar til að gá hvort óeðlileg efni fyndust.
Hún sagði að sér þætti það óeðlilegt og grunsamlegt að hún hafi ekki fengið að skoða hann almennilega.
Lögmaður Navalny, Olga Mikhailova, skrifaði á Facebook á sunnudagskvöld að læknar vissu ekki hvað amaði að skjólstæðingi hennar en henni þættu sjúkdómseinkenni hans furðuleg í ljósi þess að hann hafi aldrei fengið ofnæmisviðbrögð áður.
Navalny varð fyrir alvarlegum efnabruna á hægra auga árið 2017 þegar ráðist var á hann. Læknar náðu að bjarga sjón hans og auganu.
