Lögreglu var í gærkvöldi tilkynnt um innbrot og þjófnað í heimahús í Kópavogi. Þar hafði þjófurinn farið inn um glugga, stolið m.a. lykli að bifreið og ekið henni á brott.
Við rannsókn málsins kom hins vegar í ljós að hinn grunaði var þegar í haldi lögreglu vegna annars máls þegar brotið var tilkynnt en talið er að um tveir sólarhringar hafi liðið á milli innbrotsins og tilkynningar til lögreglu. Málið telst upplýst og er bifreiðin fundin.
Á níunda tímanum handtók lögregla mann í annarlegu ástandi þar sem hann var gestum til ama við veitingahús í Hafnarfirði, að því er segir í dagbók lögreglu. Lögregla hafði áður vísað manninum frá veitingahúsinu en hann ekki látið segjast. Maðurinn var vistaður í fangageymslu meðan ástand hans batnar.
Þá handtók lögregla mann í Hlíðahverfi vegna gruns um sölu eða dreifingu fíkniefna. Maðurinn var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.
Á áttunda tímanum hafði lögregla afskipti af ökumanni bifreiðar í Breiðholti. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum.
Kona í annarlegu ástandi var svo handtekin í Fossvogi skömmu fyrir miðnætti. Hún var vistuð í fangageymslu sökum ástands.
Þá stöðvaði lögregla bifreið á Suðurlandsvegi á þriðja tímanum í nótt. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíknefna og að aka sviptur ökuréttindum. Bifreiðin reyndist jafnframt vera ótryggð og voru skráningarnúmer því klippt af.
Alls komu 65 mál inn á borð lögreglu frá klukkan fimm í gær og þangað til fimm í morgun. Þrír voru á þessum tíma vistaðir í fangageymslu.

