Leiðsögumaðurinn sem sendi Vísi myndskeiðið hér að neðan segir að maðurinn hafi einfaldlega fækkað fötum og stungið sér út í brimið. Eins og sjá má af myndbandinu hafi hann síðan átt í mestu vandræðum með að hlaupa aftur í landi, enda Reynisfjara þekkt fyrir öflugar öldur.
Hann hafi þó komist í land, kaldur og blautur eins og við var að búast. Þrátt fyrir það hafi hópur útlenskra unglinga sýnt því mikinn áhuga að leika uppátæki mannsins eftir og stinga sér til sunds. Leiðsögumaðurinn segist hins vegar hafa hlaupið til og náð að tala unglingana af því, enda hættan mikil eins og dæmin sanni.
Nokkur banaslys hafa einnig orðið í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum síðustu ár. Bandarísk kona á áttræðisaldri beið bana þegar brimalda hrifsaði hana út á dýpið árið 2007. Árið 2016 lést kínverskur ferðamaður um fertugt þegar stór alda sló honum í bergið. Síðast varð banaslys tengt briminu í janúar í fyrra þegar þýsk kona fór í sjóinn við Kirkjufjöru.
Ferðaþjónustuaðilar hafa kallað eftir því að gerðar verði frekari öryggisráðstafanir í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum vegna tíðra slysa. Lögregla hafði eftirlit með svæðinu um tíma eftir banaslysið í Reynisfjöru árið 2016 og þá var komið upp viðvörunarskiltum vegna slysahættu við sjóinn sama ár.