Loka þurfti fyrir umferð um Víkurskarð eftir að eldur kom upp í fellihýsi í eftirdragi í morgun. Líklegt er að kviknað hafi í út frá bremsubúnaði.
Í samtali við Vísi segir Börkur Árnason, varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, að ökumaður bílsins sem var með fellihýsið í eftirdragi hafi náð að stoppa bílinn er vart varð við eldinn, aftengja fellihýsið og koma bílnum frá.
Slökkviliðið á Akureyri var kallað út en fellihúsið gjöreyðilagðist í eldinum. Lokað var fyrir umferð um Víkurskarð í um tvo tíma á meðan unnið var á vettvangi.
Líkt og fyrr segir er talið líklegt að rekja megi upptök eldsins til bremsubúnaðar en að sögn Barkar var enginn gaskútur um borð í fellihýsinu og því engin sprengihætta.
