„Þetta er augnablik sem við verðum að nýta til þess að ná alvöru árangri í verki,“ sagði Robinson í viðtali við fréttastofu í dag. Hún segir það löngu tímabært að fólk taki varnaðarorðum vísindamanna alvarlega og grípi til aðgerða.
Sjá einnig: „Í dag kveðjum við formlega jökulinn Ok"
Á morgun koma leiðtogar Norðurlandanna saman og vonar Robinson að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leggi það til að leiðtogar ríkjanna lýsi yfir loftslagsneyðarástandi. Katrín sé vel að sér í loftslagsmálum og það myndi hafa áhrif á alla heimsbyggðina ef Norðurlöndin tækju höndum saman í þessum efnum.
„Hvað þýðir [loftslagsneyðarástand]? Það þýðir að við hættum að tala um loftslagsbreytingar eins og vandamál framtíðarinnar, eitthvað sem gæti gerst og við tökum því alvarlega og minnkum útblástur. Útblástur er að aukast og við erum ekki á leið í átt að öruggari heimi fyrir börnin okkar og barnabörn,“ sagði Robinson og bætti við að yngstu kynslóðir heimsins væru farnar að kalla eftir breytingum og að Ísland væri engin undantekning þar.
Sjá einnig: Gæti orðið sögulegur leiðtogafundur á Íslandi
„Forsætisráðherrann ykkar er mjög fróður í loftslagsmálum en ég held að ef við fengjum sameiginlega yfirlýsingu frá Norðurlöndunum, það væri það besta í stöðunni. Það myndi hafa áhrif á heiminn okkar, það myndi skipta sköpum, það myndi heiðra Ok, þennan jökul sem hefur dáið vegna okkar gjörða.“
Robinson segir fólk sífellt verða meira meðvitað um útblástur og mengandi iðnað en þrátt fyrir það væri slíkt enn að aukast. Það sé því ekki nóg að vera meðvitaður um vandann, það þurfi einfaldlega að breyta öllu því það sé óásættanlegt að hugsa til þess að eftir tvö hundruð ár gætu allir jöklar landsins verið horfnir.
„Við verðum að skilja að við getum átt mun betri heim, mun heilbrigðari heim, jafnari heim, heim þar sem allir hafa aðgang að hreinni orku,“ segir Robinson.
Hér að neðan má sjá viðtalið við Mary Robinson í heild sinni.