Við sáum fólk í fyrsta skipti nákvæmlega eins og það var þann daginn.
Fín og hugguleg á kaffihúsi, á hlaupum í búðinni, sveitt í ræktinni eða skítstressuð í biðröð í bankanum...
Nú stjórnum við því yfirleitt hvernig fólk sér okkur í fyrsta skipti. Eða réttara sagt hvernig það upplifir okkur í fyrsta skipti. Í gegnum skjáinn á símanum sínum.
Fyrstu kynni af manneskjum í dag eru oft ekki raunveruleg, heldur ritstýrð.
Við skoðum prófílinn, förum í gegnum myndirnar, greinum satusa og guð má vita hvað meira.
Samskipti fólks í dag sem er að kynnast eða byrja að daðra eða hittast eiga sér oftast stað á netinu.
Við getum hugsað okkur um áður en við sendum einhverja hnittna setningu til manneskjunnar. Við getum hugsað okkur lengi um hvernig best er að svara henni og svo stundum sendum við myndir. Myndir sem við, oftar en ekki, tökum sjálf.
Ég féll í þessa gryfju sjálf þegar ég var einleyp. Ég tók fleiri myndir af mér, ég passaði hvaða týpu ég vildi sína á hvaða tíma, að mestu ómeðvitað hugsa ég. En þegar ég lít til baka og renni yfir prófílinn minn á Instagram get ég ekki annað en hlegið!
Þannig var myndinni allavega ritstýrt þó að raunveruleikinn hafi hins vegar verið allt annar.
Ég var ósofin, útgrátin kuldaskræfa í ástarsorg. Ætli ég hafi ekki verið ca fjórar og hálfa mínútu í sjónum.
Þvílíka hetjan.

Undir þessa mynd skrifaði ég:
Legið undir feld í kosningahugleiðingum!
Það er kannski skemmst frá því að segja að þarna hefði mér ekki getað verið meira sama um þessar blessuðu kosningar. Það sem mér var hins vegar ekki sama um var að strákurinn sem ég var að tala við var ekki búinn að svara mér.
Ég fann mig því knúna til að birta mynd af mér sem sýndi það að ég væri auðvitað sultuslök, sjúklega sæt og á fullu að pæla í stjórnmálum. Og það sem var mikilvægast, alls ekki að bíða eftir því að fá svar frá honum.
En hvað er þetta með þessar myndir og alla þessa filtera? Þessi pæling er í rauninni fáránleg. Ég sendi mynd af mér eða birti mynd af mér með fullkomna húð, grennri í framan, engar freknur og engar línur meðan það var augljóslega ekki raunveruleikinn.
Við hverju býst ég svo þegar ég hitti fólk eða manneskjuna sem ég sendi myndirnar á? Hvað segi ég?
Afsakið þetta með freknurnar og línurnar. Já og nefið, það er víst svona.Ég veit að ég er ekki ein um þetta og ábyggilega ekki sú sem gerir þetta hvað mest en ég er ein af þeim sem hef tekið eftir þessu hjá öðru fólki en ekki verið meðvituð um það að þetta hefði verið hluti af minni hegðun á samfélagsmiðlum.
Hrein og klár skæling á raunveruleikanum, ekki satt?
Ég var að fara yfir Snapchat reikninginn minn um daginn sem ég nota ekkert lengur. Þar eru að finna ófáar myndirnar eða myndböndin þar sem ég skarta hinum víðfræga hundafilter. Mig langar svo að skilja það af hverju ég og svo margar aðrar konur hafa notað hann eða eru að nota hann. Kannski eitt mest áberandi dæmið um þessa filters-firringu er ein frægasta og ríkasta kona í heimi í dag, Kylie Jenner.
Þegar hún talar á Instagram er hún oftast með hundafilterinn. Þrátt fyrir að vera sjálf búin að filtera sig ansi hressilega hjá lýtalæknum síðustu ár, finnst henni hún greinilega samt sem áður frambærilegri með hundafilterinn.
Ég bara get með engu móti skilið þetta, alla þessa filtera og þennan gjörning okkar, oft ómeðvitað, að fegra okkur á netinu.
Afhverju þarf okkar eigið náttúrulega útlit að vera filterað?
Afhverju leið mér betur með það að senda myndband af mér með hundafilter til stráks sem ég var að daðra við?
Er útlitsbrenglunin í alvöru orðin svona mikil að mér, 38 ára, tveggja barna móður, fannst ég sætari sem hundur?