Skýrslan byggist bæði á skoðanakönnunum og launakröfum stéttarfélaga. Fjögur aðildarfélög ASÍ gerðu hátt í átta hundruð launakröfur í fyrra sem samtals námu um 450 milljónum. Yfir helmingur allra krafna voru gerðar fyrir hönd félagsmanna af erlendum uppruna en um 19% launafólks á Íslandi er af erlendum uppruna.
Sjá einnig: Milljónir króna hafðar af erlendu verkafólki
„Við sjáum auðvitað fyrst og fremst að um helmingur allra krafna sem voru gerðar hjá þessum félögum var vegna erlendra félagsmanna og við sjáum líka það að um helmingur krafna eru gerðar vegna fyrirtækja sem eru í ferðaþjónustu- eða veitinga- eða gistiþjónustu,“ segir Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ.
Brotin eru misalvarleg en þau geta meðal annars falist í vangreiðslu á launum, álagsgreiðslum eða örum réttindabrotum. „Þessi skýrsla sýnir svo að ekki verður um villst það sem við höfum haldið fram, að launaþjófnaður á vinnumarkaði er staðreynd og það er mest í byggingageiranum og ferðaþjónustunn,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa segir ýmislegt hægt að gera til að bregðast við, meðal annars sé mikilvægt að fylgja eftir yfirlýsingum stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga í vor. „Og síðan er að herða viðurlög, það á ekki að geta borgað sig að svína á fólki í launum, það er kannski eitt af stóru málunum.“
Hún segir að svo virðist sem hér sé að teiknast upp ný stéttaskipting á Íslenskum vinnumarkaði. „Það eru annars vegar þeir sem eru viðkvæmir fyrir, það eru útlendingar, ungt fólk, fólk í lausbeisluðum ráðningarsamböndum og hins vegar þeir sem eru komnir fyrir vind með fasta vinnu, meðaltekjur eða fyrir ofan, og hvernig brotin lenda á viðkvæmustu hópunum.“