Hvöss norðanáttin sem var yfir landinu um helgina gerði það að verkum að brúnan þykkan mökk lagði út á haf um sunnanvert landið eins og sjá má á veðurtunglamyndum MODIS sem Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands birti á Facebook í gær. Landfokið var hvað mest sunnan Mýrdalssands og virðast upptökin vera inn til landsins, í grennd við Rjúpnafell.

Árni segir landfokið í gær líklega ekki eiga uppruna sinn í rofnu mólendi en að þó sé eitthvað moldarefni þar á ferðinni. Hann segir landfok sem þetta hafa mikil áhrif á loftgæði.
„Alveg klárlega og það er nú kannski heilbrigðiseftirlitið sem geta meira sagt til um það en ég. En þegar magnið er eins mikið og það var í gær að þá er varla hægt að líta til fjalla án þess að fá hreinlega í augun,“ segir Árni og bætir við að það eina sem stöðvi landfok sem þetta sé gróður og að ekki sé mikið um hann á hálendinu.
„Það er heilmikið verk að vinna enn þá í uppgræðslu lands,“ segir Árni.