Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla veltir nú fyrir sér hvar fyrirtækið eigi að bera niður með nýrri samsetningarverksmiðju fyrir bíla sína í Evrópu. Helst horfir Tesla til Þýskalands og koma helst til greina svæðin Nordrhein-Westfalen og Neðra-Saxland.
Tesla hefur hug á því að reisa á öðrum hvorum staðnum „Gigafactory“-verksmiðju, en fyrir eru slíkar í Bandaríkjunum og einnig er verið að reisa eina í Kína. Forstjóri Tesla, Elon Musk, hefur látið hafa eftir sér að æskileg staðsetning væri Þýskalandsmegin við Frakkland og Benelux-löndin og í því ljósi er héraðið Nordrhein-Westfalen líklegasti kosturinn, en það liggur einmitt að þessum löndum.
Evrópa er næststærsta markaðssvæði heims fyrir rafmagnsbíla á eftir Kína og því er eðlilegt að Tesla íhugi uppsetningu samsetningarverksmiðju í álfunni. Elon Musk segir að Tesla sé í raun í keppni við tímann þar sem margir aðrir bílaframleiðendur séu langt komnir með þróun rafmagnsbíla og hann óttast að Tesla geti misst verulega hlutdeild sína til fyrirtækja eins og Mercedes-Benz, Audi, BMW og Jaguar sem eru nú þegar komin með á markað athygliverða rafmagnsbíla sem seljast vel.
