Ferðamennirnir standa í flæðarmálinu að taka myndir og virða fyrir sér brimið þegar alda kemur að landi, skellur síðan á þeim og sópar þeim með sér innar í fjöruna. Viðstaddir brugðust þó fljótt við og komu fólkinu til aðstoðar og aftur á fætur.
Litlu mátti muna að verr færi en ítrekað hefur verið sagt frá atvikum þar sem ferðamenn eru hætt komnir í fjörunni. Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og hafa verið sett upp viðvörunarskilti sem ferðamenn virða ítrekað að vettugi.

Ferðaþjónustuaðilar hafa kallað eftir því að gerðar verði frekari öryggisráðstafanir í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum vegna tíðra slysa. Lögregla hafði eftirlit með svæðinu um tíma eftir banaslysið í Reynisfjöru árið 2016 og þá var komið upp viðvörunarskiltum vegna slysahættu við sjóinn sama ár.