Leifar fellibylsins Dorian, sem olli mikilli eyðileggingu á Bahama-eyjum fyrr í mánuðinum, ganga yfir landið í dag að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.
Í hugleiðingunum kemur fram að veðrið muni minna mun meira á hefðbundna septemberlægð heldur en leifar fellibyls þar sem styrkur Dorians sé nú orðinn það lítill.
Þá verða norðlægari vindar á morgun og rigning sem verður einkum bundin við norðanvert landið.
„Síðan taka við suðvestlægar áttir fram að helgi með skúrum um mest allt land. Á laugardag er síðan von á næstu lægð og ætlar hún að verða í blautari kantinum eins og staðan er núna. Hefðbundnar hitatölur, lítið um kulda og yfirleitt 5 til 10 stiga hiti að deginum,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Veðurhorfur næstu daga:
Vaxandi austanátt, víða 8-13 í dag, en 13-18 við suðurströndina fram yfir hádegi. Rigning á sunnanverðu landinu og einnig norðan heiða síðdegis. Norðlægari vindur í kvöld.
Norðan og norðvestan 5-13 og rigning með köflum norðan á morgun, en lengst af þurrt syðra. Hiti 6 til 14 stig, mildast SA-til.
Á miðvikudag:
Norðan og norðvestan 5-13 m/s og rigning, en úrkomulítið sunnan heiða. Hiti 4 til 14 stig, mildast S-lands.
Á fimmtudag:
Fremur hæg suðvestlæg eða breytileg átt og víða dálítil rigning. Hiti 4 til 9 stig að deginum.
Á föstudag:
Suðvestan 5-13, hvassast S-til. Skúrir, en úrkomulítið A-til. Hiti breytist lítið.
Á laugardag:
Austlæg átt og rigning, en vestlæg átt um kvöldið. Hiti 5 til 10 stig.
Leifar fellibylsins Dorian ganga yfir landið
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
