Brunavarnir Suðurnesja voru kallaðar út vegna elds sem kviknaði í vinnuskúr við leikskóla að Tjarnabraut í Reykjanesbæ. Búið er að slökkva eldinn að sögn varðstjóra.
Útkallið barst seint á níunda tímanum og samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Suðurnesja voru slökkviliðsmenn að ganga frá á vettvangi nú skömmu eftir klukkan níu. Ekki er vitað hvort skúrinn tilheyri leikskólanum en hann stendur nokkrum metrum frá skólabyggingunni.
Þá skemmdist skúrinn nokkuð í brunanum. Ekki er vitað um eldsupptök á þessari stundu.

