Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni, sem hann á að hafa framið fyrir rétt rúmu ári í Ísafjarðarbæ. Í ákæru héraðssaksóknara kemur fram að maðurinn á að hafa veist að lögreglumanni sem á að hafa verið við skyldustörf á Skutulsfjarðarbraut.
Hinn ákærði á að hafa veitt lögreglumanninum hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut „bólgu og eymsli í kringum hægra auga,“ eins og það er orðað í ákærunni.
Hnefahöggið er talið varða við hegningarlög og eru viðurlögin fangelsi allt að sex árum. Þess er krafist af saksóknara að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
