Ballarin boðaði til blaðamannafundar á Hótel Sögu þann 6. september og kynnti áform um endurreisn WOW air. Þá sagði hún planið að hefja miðasölu í vikunni á eftir og að jómfrúarflugið yrði í október. Ekkert hefur frést af miðasölu síðan fyrr en nú.
Í frétt FlightGlobal kemur fram að Ballarin svari engum upplýsingum um leiðarkerfi eða áætlanir flugfélagsins. Raunar hafi engin frekari svör fengist en áætlaðar tímasetningar eins og fram hefur komið.
„WOW air ætlar að vera komið á fullt í desember eftir að miðar fara á sölu í nóvember,“ segir í yfirlýsingunni frá USAerospace sem Ballarin er í forsvari fyrir.
Vísað er til breytinga á flugvélamarkaðnum undanfarnar vikur sem hafi gert það að verkum að USAerospace sé að endurmeta möguleika sína með hagsmuni hluthafa og viðskiptavina að leiðarljósi. Meðal lággjaldaflugfélaga sem hafa horfið af markðanum undanfarið má nefna Thomas Cook, XL Airways í Frakklandi og Adria Airways.
Talsmaður Dulles flugvallar í Washington tjáði FlightGlobal að fulltrúar flugvallarins hefðu fundað með forsvarsmönnum hins endurreista WOW air í ágúst. Síðan þá hefði ekkert heyrst frá þeim.