Maðurinn sagðist hafa skrifað harðorða athugasemd til Félagsvísindastofnunar vegna þessa. Hann telur hugsanlegt að þarna sé einhver stjórnmálaflokkur eða samtök að fiska í gruggugum sjó því meðal þess sem spurt er um er hvaða stjórnmálaflokkur á Íslandi hann telji hafa bestu stefnu til að sporna við hryðjuverkum á Íslandi.

Alþjóðleg könnun um afstöðu til hryðjuverka
Vísir setti sig í samband við Félagsvísindastofnun og spurði hvað væri í pípunum? Fyrir svörum var sjálfur panelstjórinn Ævar Þórólfsson. Hann kannaðist við þessa tilteknu könnun en hafði hana þó ekki á sínum snærum. En, vissi þó að um var að ræða könnun sem tengdist alþjóðlegu samstarfi. Og úrtakið væri stórt eða um sex þúsund manns.
Félagsvísindastofnun framkvæmdaaðili
Ævar bendir á að þegar svo háttar til, að um alþjóðlegt samstarf er að ræða þá hafi þau hjá Félagsvísindastofnuninni minni stjórn á því um hvað og hvernig væri spurt. „Við erum bara framkvæmdaaðili,“ segir Ævar sem telur víst að þessi tiltekni spurningavagn sé að til kominn vegna milligöngu einhvers kennara við Háskólann.Ævar segir að það sé mikið í gangi hjá Félagsvísindastofnun, þar séu fjórtán starfsmenn sem sinna meðal annars gerð og framkvæmd kannana sem séu tengd styrkjum sem kennarar hafi fengið, eða fyrir stofnanir og fyrirtæki. Öll verkefni eru útseld, stofnunin er ekki á fjárlögum en minna sé um það hjá Félagsvísindastofnun en öðrum fyrirtækjum á þessu sviði að stjórnmálaflokkar kaupi hjá þeim kannanir.
*
Uppfært 16:40
Umrædd könnun tengist verkefni sem þrír fræðimenn við Félagssvið HÍ og norrænir samstarfsfélagar þeirra fengu styrk til að rannska, sem nemur 120 milljónum frá Nordforsk; áhrif hryðjuverkaógnar á borgara og einnig áhrif lagasetningar gegn hryðjuverkum á viðhorf fólks til lýðræðis og trausts á stjórnvöldum.
Í tilkynningu frá Háskóla Íslands á sínum tíma kom fram að af heildarstyrk til verkefnisins komi 32,5 milljónir í hlut Háskóla Íslands, en meðal aðstandenda þess eru þau Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, Hulda Þórisdóttir, dósent í stjórnmálafræði og Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði.
