Málið kom upp í ársbyrjun 2018 en um það leyti lagði lögregla hald á snjallsíma mannsins sem innihélt myndskeið af stúlkum og mæðrum í sturtu. Þá voru þrír minnislyklar og spjaldtölva mannsins sömuleiðis gerð upptæk.
Þorbjörg Gunnarsdóttir, forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar á Þingeyri, segir í samtali við Vísi að strax hafi verið brugðist við þegar málið komst upp. Nýtt þil hafi verið smíðað á milli klefanna til að koma í veg fyrir iðju á borð við þessa.

Bótakröfur á hendur manninum frá brotaþolum nema 10,5 milljónum króna. Málið var nýlega þingfest í Héraðsdómi Vestfjarða. Maðurinn mun hafa flutt úr landi eftir að málið kom upp. Hann er ákærður fyrir kynferðisbrot, blygðunarsemisbrot nánar tiltekið, og brot á barnaverndarlögum.
Vísir fjallaði um málið í gær en þá lá ekki fyrir hvar brotið átti sér stað eða hvaða tengsl ákærði hafði við sundlaugina. Veltu margir fyrir sér hvar málið hefði komið upp og hver ætti í hlut. Blaðamaður þekkir til eins dæmis um fyrrverandi starfsmann við sundlaug á Vestfjörðum sem hefur ranglega verið bendlaður við málið. Sá íhugar að leita réttar síns vegna slúðursagna.