Everest kom manni ekki við Jónas Sen skrifar 19. október 2019 10:00 Það var eins og tónlistin kæmi honum ekki beinlínis við, segir gagnrýnandi. Sinfóníutónleikar Verk eftir Brahms og Tsjajkovskí Einleikari: Stephen Hough. Stjórnandi: Han-Na Chang. Eldborg í Hörpu fimmtudaginn 10. október Brahms mun hafa verið leiðindakarl. Hann var geðvondur og almennt óþægilegur í lund; sérvitur piparsveinn allt sitt líf. Þegar hann var að vaxa úr grasi var fjölskyldan hans mjög fátæk, svo Brahms litli þurfti að koma með einhverjar tekjur til heimilisins. Hann var því sendur til að spila á píanó á krám og hóruhúsum, og þar sá hann ýmislegt í samskiptum kynjanna sem hafði áhrif á hann ævilangt. Fyrir bragðið er ákveðinn einmanaleiki í tónlist hans, ekki síst í undurfögrum en angurværum hæga kaflanum í öðrum píanókonsertinum. Hann var á dagskránni á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Stephen Hough (borið fram Hoff) var einleikarinn. Hough er frábær píanóleikari og bæði umræddur kafli, sem og hinir þrír, voru lýtalausir tæknilega séð. Tæknilega fullkomið en kalt Slík frammistaða er ekkert smáræðis afrek, því þessi konsert er Everestfjall píanóleikaranna. Einleiksparturinn samanstendur af viðbjóðslega erfiðum stökkum upp og niður hljómborðið, ógnarhröðum þríundahlaupum og allskonar kúnstum. Hough spilaði þó eins og hann hefði ekkert fyrir því. Þetta eru góðu fréttirnar. Minna gaman var að píanóleikarinn spilaði nokkuð kuldalega; tónlistin er þrungin ástríðum, en þær skiluðu sér ekki fyllilega á tónleikunum. Kannski hefur Hough leikið verkið aðeins of oft. Hann minnti dálítið á afgreiðslumann í matvöruverslun sem er renna matvörum í gegnum skanna í milljónasta skipti. Það var eins og tónlistin kæmi honum ekki beinlínis við; hún væri bara eitthvað sem hann gerði. Hefði mátt spila betur Verra var að hljómsveitin spilaði ekki vel í fyrsta kaflanum. Viðkvæmt hornsóló í byrjun klúðraðist gersamlega, og á öðrum stað spilaði sveit tréblásara verulega ómarkvisst. Þetta kann að hljóma eins og sparðatíningur, en það er það ekki; svona smáatriði skipta máli. Hápunkturinn í leik hljómsveitarinnar var sellósóló sem Sigurgeir Agnarsson lék í þriðja kaflanum, það var reglulega fallegt. Verstu fréttirnar eru hitt verkið á dagskránni, sjötta sinfónían eftir Tsjajkovskí. Túlkun hljómsveitarstjórans, Han-Na Chang, einkenndist af yfirborðsmennsku, að mati undirritaðs. Hún baðaði vissulega út öllum öngum eins og teiknimyndafígúra, en það skilaði sér ekki í listrænni upplifun. Hljómsveitin spilaði þó mjög vel tæknilega séð, en það var ekki nóg. Hvorki hraði hlutinn í fyrsta kaflanum, né þriðji kaflinn í heild, komu vel út. Tónlistin var svo yfirspennt og hröð að útkoman var ruddaskapur sem pínlegt var að upplifa. Mann langaði mest til að halda fyrir eyrun. Hægu hlutar sinfóníunnar voru líka flatneskjulegir og litlausir; valskenndi annar kaflinn, í fimm-skiptum takti, náði aldrei neinu risi, og sorglegur lokakaflinn var bara dauflegt andvarp eftir yfirkeyrt, manískt brjálæðið þar á undan. Sinfónían eftir Tsjajkovskí er svo sannarlega stórkostlegt tónverk, en það sem hér heyrðist var ekki sannfærandi og olli miklu vonbrigðum. Niðurstaða: Tæknilega fullkominn, en fremur kuldalegur einleikur, og hljómsveitin hefur átt betri daga. Birtist í Fréttablaðinu Tónlist Sinfóníuhljómsveit Íslands Mest lesið „Ég hélt svo innilega að það væri stelpa“ Lífið Yfir fimmtíu fengu sér tattú í stórafmæli Steinda Lífið Úttekt á merkilegu orðfæri Ingu Sæland Lífið „Sá síðasti dó á þessu ári“ Lífið Trump yngri er algjör kvennabósi Lífið Ást er: Sigtaði sinn mann út á vellinum Lífið Bríet olli vonbrigðum Gagnrýni Selena komin með hring Lífið Paul Mescal leiki nafna sinn McCartney Bíó og sjónvarp Live in a fishbowl: Alvöru harðkjarnapönk í boði I adapt Tónlist Fleiri fréttir Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Sinfóníutónleikar Verk eftir Brahms og Tsjajkovskí Einleikari: Stephen Hough. Stjórnandi: Han-Na Chang. Eldborg í Hörpu fimmtudaginn 10. október Brahms mun hafa verið leiðindakarl. Hann var geðvondur og almennt óþægilegur í lund; sérvitur piparsveinn allt sitt líf. Þegar hann var að vaxa úr grasi var fjölskyldan hans mjög fátæk, svo Brahms litli þurfti að koma með einhverjar tekjur til heimilisins. Hann var því sendur til að spila á píanó á krám og hóruhúsum, og þar sá hann ýmislegt í samskiptum kynjanna sem hafði áhrif á hann ævilangt. Fyrir bragðið er ákveðinn einmanaleiki í tónlist hans, ekki síst í undurfögrum en angurværum hæga kaflanum í öðrum píanókonsertinum. Hann var á dagskránni á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Stephen Hough (borið fram Hoff) var einleikarinn. Hough er frábær píanóleikari og bæði umræddur kafli, sem og hinir þrír, voru lýtalausir tæknilega séð. Tæknilega fullkomið en kalt Slík frammistaða er ekkert smáræðis afrek, því þessi konsert er Everestfjall píanóleikaranna. Einleiksparturinn samanstendur af viðbjóðslega erfiðum stökkum upp og niður hljómborðið, ógnarhröðum þríundahlaupum og allskonar kúnstum. Hough spilaði þó eins og hann hefði ekkert fyrir því. Þetta eru góðu fréttirnar. Minna gaman var að píanóleikarinn spilaði nokkuð kuldalega; tónlistin er þrungin ástríðum, en þær skiluðu sér ekki fyllilega á tónleikunum. Kannski hefur Hough leikið verkið aðeins of oft. Hann minnti dálítið á afgreiðslumann í matvöruverslun sem er renna matvörum í gegnum skanna í milljónasta skipti. Það var eins og tónlistin kæmi honum ekki beinlínis við; hún væri bara eitthvað sem hann gerði. Hefði mátt spila betur Verra var að hljómsveitin spilaði ekki vel í fyrsta kaflanum. Viðkvæmt hornsóló í byrjun klúðraðist gersamlega, og á öðrum stað spilaði sveit tréblásara verulega ómarkvisst. Þetta kann að hljóma eins og sparðatíningur, en það er það ekki; svona smáatriði skipta máli. Hápunkturinn í leik hljómsveitarinnar var sellósóló sem Sigurgeir Agnarsson lék í þriðja kaflanum, það var reglulega fallegt. Verstu fréttirnar eru hitt verkið á dagskránni, sjötta sinfónían eftir Tsjajkovskí. Túlkun hljómsveitarstjórans, Han-Na Chang, einkenndist af yfirborðsmennsku, að mati undirritaðs. Hún baðaði vissulega út öllum öngum eins og teiknimyndafígúra, en það skilaði sér ekki í listrænni upplifun. Hljómsveitin spilaði þó mjög vel tæknilega séð, en það var ekki nóg. Hvorki hraði hlutinn í fyrsta kaflanum, né þriðji kaflinn í heild, komu vel út. Tónlistin var svo yfirspennt og hröð að útkoman var ruddaskapur sem pínlegt var að upplifa. Mann langaði mest til að halda fyrir eyrun. Hægu hlutar sinfóníunnar voru líka flatneskjulegir og litlausir; valskenndi annar kaflinn, í fimm-skiptum takti, náði aldrei neinu risi, og sorglegur lokakaflinn var bara dauflegt andvarp eftir yfirkeyrt, manískt brjálæðið þar á undan. Sinfónían eftir Tsjajkovskí er svo sannarlega stórkostlegt tónverk, en það sem hér heyrðist var ekki sannfærandi og olli miklu vonbrigðum. Niðurstaða: Tæknilega fullkominn, en fremur kuldalegur einleikur, og hljómsveitin hefur átt betri daga.
Birtist í Fréttablaðinu Tónlist Sinfóníuhljómsveit Íslands Mest lesið „Ég hélt svo innilega að það væri stelpa“ Lífið Yfir fimmtíu fengu sér tattú í stórafmæli Steinda Lífið Úttekt á merkilegu orðfæri Ingu Sæland Lífið „Sá síðasti dó á þessu ári“ Lífið Trump yngri er algjör kvennabósi Lífið Ást er: Sigtaði sinn mann út á vellinum Lífið Bríet olli vonbrigðum Gagnrýni Selena komin með hring Lífið Paul Mescal leiki nafna sinn McCartney Bíó og sjónvarp Live in a fishbowl: Alvöru harðkjarnapönk í boði I adapt Tónlist Fleiri fréttir Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira